Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 05. mars 2009, kl. 17:58:42 (4748)


136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[17:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég gekk í salinn áðan og hv. þm. Mörður Árnason var að gæla við þá hugmynd að hleypa út íhaldsmanninum í sjálfum sér varð ég glaður og vonaði að hann tæki sæmilega íhaldssama afstöðu til þess máls sem hér liggur fyrir en svo virðist þó ekki vera. Þetta segi ég vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að hæfileg íhaldssemi sé nauðsynleg varðandi leikreglur um kosningalög. Kosningalög eru þess eðlis að þau eiga ekki að taka tíðum breytingum, þau eiga að vera aðgengileg og þekkt og breytingar eiga að gerast með góðum fyrirvara áður en kemur til kosninga. Ég held að um þetta hljóti flestir að vera sammála.

Það eru tvö önnur atriði í máli hv. þm. Marðar Árnasonar sem ég ætlaði að víkja að. Annars vegar það atriði sem hann nefndi varðandi samspil persónukjörs og kosninga, hættuna á því að prófkjör færist inn í kosningar. Mér fannst hv. þingmaður skauta heldur létt yfir þann þátt vegna þess að við verðum auðvitað að horfa á það að kosningarnar ganga ekki einungis út á það að velja flokka heldur líka að velja fólk og þeir sem eru í framboði eru auðvitað að berjast fyrir því að ná kjöri sjálfir, þess vegna fara þeir í framboð, flestir. Það er óeðlilegt og ekki raunsætt að ætla að persónukjörið muni ekki leiða til þess að það komi til blóðugra átaka milli manna sem ella væru samherjar alveg fram á kjördag eins og gerist oft í prófkjörum í dag.

Þetta held ég að menn verði að hafa í huga. Persónukjör hefur ýmsa kosti (Forseti hringir.) en menn verða líka að huga að göllunum og fara vel yfir málið áður en ákvarðanir eru teknar.