Virðisaukaskattur

Föstudaginn 06. mars 2009, kl. 11:43:27 (4785)


136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var einmitt það sem ég benti á, kannski sérstaklega að verkstjórinn sem vinnur líka meira af hugsun en í höndunum er eiginlega að gera nákvæmlega það sama og verkfræðingurinn. Verkstjóri sem stýrir framleiðslu glugganna á verkstæði selur í rauninni hugsun og stjórnun á meðan verkfræðingurinn gerir eiginlega það sama. Menn rekast alltaf á svona dæmi, en auðvitað þarf maður einhvers staðar að takmarka sig.

Það sem mér finnst vanta er að hv. þingmaður svari athugasemdinni um hvatann. Við erum að fella niður gjöld og við það fer kerfið í gang, eins og hv. þingmaður lýsti svo vel, þetta væri eins konar hvatakerfi. Við ræddum það reyndar í nefndinni að við mundum fella niður virðisaukaskatt af öllu sem tengist byggingariðnaði. Það þótti mönnum fullbratt en að sjálfsögðu er þetta nánast allt saman stopp.