Mál á dagskrá -- tónlistar- og ráðstefnuhús

Mánudaginn 09. mars 2009, kl. 15:04:32 (4852)


136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

mál á dagskrá -- tónlistar- og ráðstefnuhús.

[15:04]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Undir störfum þingsins í liðinni viku og vikunni þar á undan var óskað eftir því að formaður fjárlaganefndar gerði grein fyrir umræðum um tónlistar- og ráðstefnuhús. Ég lýsti því þá yfir að við mundum fá á fund fjárlaganefndar fulltrúa Austurhafnar-TR ehf. og fulltrúa fjármálaráðuneytisins. Þeir komu á fund fjárlaganefndar í morgun og það varð niðurstaða hennar að óska eftir skriflegri greinargerð frá menntamálaráðuneytinu og Austurhöfn-TR ehf., varðandi framgang á tónlistar- og ráðstefnuhúsinu. Jafnframt því að óska eftir umsögn frá Ríkisendurskoðun með hliðsjón af lögum um fjárreiður ríkisins. Þessi gögn munu berast fjárlaganefnd á næstu dögum eða vikum.

Ég lofaði að gera grein fyrir þessu á þingfundi og hef hér með gert það, virðulegi forseti.