Mál á dagskrá -- tónlistar- og ráðstefnuhús

Mánudaginn 09. mars 2009, kl. 15:15:10 (4861)


136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

mál á dagskrá – tónlistar- og ráðstefnuhús.

[15:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

(MÁ: Sjálfstæðismaður númer sex.) Hæstv. forseti. Hv. þm. Mörður Árnason kann að telja. Ég ætla að koma inn á þrjá þætti, fyrst það sem hv. þm. Árni Páll Árnason sagði. (Gripið fram í: Samfylkingarmaður.) Hann lagði áherslu á að það ætti að taka málin fyrir og sjálfstæðismenn væru að drolla. Ég ætla bara að nefna þrjú mál sem við sjálfstæðismenn teljum að eigi að vera í forgangi hér í dag. (Gripið fram í: Fundarstjórn forseta.) Atvinnuleysistryggingar, embætti saksóknara og auknar heimildir til hans, heimild til samninga um álver í Helguvík. Þetta eru allt mál sem við leggjum áherslu á að verði tekin fyrir vegna þess að við teljum þau brýn. Þess vegna segjum við: Við viljum frekar tala um þau núna og geyma stjórnarskipunarumræðuna sem við vitum að verður löng eins og umræður um stjórnarskipunarlög eru jafnan á Alþingi. Við vitum öll að sú umræða verður löng. Þess vegna leggjum við til að þau mál sem liggur á verði tekin fram fyrir.

Vegna þess sem hér var áður sagt um auðlindaákvæðið er rétt að benda á það sem hæstv. forsætisráðherra sagði á föstudaginn, (Forseti hringir.) þetta ákvæði í stjórnarskrártillögunum (Forseti hringir.) mundi engu breyta um núverandi kvótakerfi ef það er það sem menn hafa (Forseti hringir.) áhuga á.