Mál á dagskrá -- tónlistar- og ráðstefnuhús

Mánudaginn 09. mars 2009, kl. 15:26:07 (4869)


136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

mál á dagskrá – tónlistar- og ráðstefnuhús.

[15:26]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

(BJJ: Láttu þá nú heyra það.) Hæstv. forseti. Það er mjög merkilegt að upplifa tilveru Sjálfstæðisflokksins í stjórnarandstöðu, þá tilveru að eftir 18 ár sitja menn ekki í valdastólunum og ráða ekki því sem þeir vilja ráða, fá ekki lengur ráðið þeirri vegferð að fella þjóðina á bakið. Þetta eru auðvitað fráhvarfseinkenni, hæstv. forseti. Það er ekkert annað sem er að.

Um hvað erum við að fara að tala í stjórnarskipunarlögunum? Jú, eina atriðið sem sjálfstæðismenn voru nokkurn veginn sammála um í stjórnarskrárnefndinni, sem Jón Kristjánsson var formaður í, var að það var ekki rætt um stjórnlagaþing. Ef það er það sem sjálfstæðismenn vilja fá út, af hverju segja þeir það ekki? Vilja þeir stjórnlagaþingið út og er þá hitt sem þeir voru búnir að samþykkja — (ArnbS: Við vildum ræða stjórnarskipunarlög.) Er það það sem hægt er að klára, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir? Svo virðist vera. Þá eiga menn að segja það. Þetta eru ekki ný mál, hvorki um auðlindir sjávar né að þjóðin fái að kjósa (Forseti hringir.) um mál sem hún metur mikils eða hvernig eigi að afgreiða stjórnarskrárbreytingar. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Við skulum ræða þetta …) Við skulum bara ræða þetta mjög hreinskilnislega, hv. þingmaður. (Forseti hringir.) Það veitir ekki af.