Aðildarumsókn að ESB -- Icesave

Miðvikudaginn 11. mars 2009, kl. 12:01:38 (5137)


136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

aðildarumsókn að ESB -- Icesave.

[12:01]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar til að halda hv. Alþingi aðeins við efnið og ræða hugsanlega aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þannig er að nýlega var gerð könnun af hálfu Capacent Gallup sem sýnir að milli 64 og 65% þjóðarinnar telja að sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu.

Framsóknarflokkurinn samþykkti á flokksþingi sínu í janúar að það skyldi gert með ákveðnum skilyrðum. Það var athyglisvert að verða vitni að því að varaformaður Sjálfstæðisflokksins tjáði sig um þessi efni nýlega á heimasíðu sinni en þar segir hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, með leyfi forseta:

„Spurningin um ESB-aðild verður ekki útkljáð nema af þjóðinni sjálfri. Því tel ég rétt að við mótum þau skilyrði sem við teljum að samþykkja verði eigi ESB-aðild að vera raunhæfur kostur fyrir Íslendinga. Síðan yrði látið á það reyna hvort hægt væri að ná fram þeim skilyrðum og niðurstaðan lögð í dóm þjóðarinnar. Öðruvísi verður þetta mál ekki klárað.“

Hv. þingmaður er ekki sérstaklega þekkt fyrir að láta kúga sig hvað varðar skoðanir og það kemur greinilega fram hér, en eins og við þekkjum hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið ákaflega íhaldssamur í sambandi við þessi mál. Ég vil því spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson, sem er frambjóðandi til formanns Sjálfstæðisflokksins, um skoðun hans á þessu máli, ekki síst í framhaldi af því að 13. desember sl. skrifaði hann grein í Morgunblaðið ásamt hv. þm. Illuga Gunnarssyni þar sem kemur fram að hvað svo sem komi út úr ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins sem er fram undan þá eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Nú spyr ég hv. þingmann: Er þetta ekki skoðun hans enn þá? (Forseti hringir.) Hefur hún nokkuð breyst við það að hann er orðinn frambjóðandi til formanns í Sjálfstæðisflokknum?