Heimild til samninga um álver í Helguvík

Miðvikudaginn 11. mars 2009, kl. 21:16:34 (5234)


136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[21:16]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er alveg rétt að ferðaþjónustufyrirtækin hafa verið í erfiðum rekstri. Það er því undarlegt að áhugamenn um atvinnumál, og einkum áhugamenn um atvinnumál á hinni svokölluðu landsbyggð, skuli ekki veita þeim þætti atvinnulífsins meiri athygli og áhuga en raun ber vitni. Margir forustumenn sem verið hafa í stjórnmálum á landsbyggðinni hafa fyrst og fremst einblínt á stóra samninga við álver sem knúin eru áfram með orku sem þarf að vera svo mikil að eyðileggja þarf heil landsvæði til að afla hennar. Það þarf ekki að gera við ferðaþjónustuna og það sem meira er, orkuöflun af því tagi kemur einmitt niður á möguleikum ferðaþjónustugreina.

Þegar menn skoða svar sama iðnaðarráðherrans og svaraði fyrirspurn hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur sjá menn hvernig þetta er. Auðvitað er hagur af fjárfestingum ekki sambærilegur, það getur hver maður sagt sér sjálfur, en reksturinn er þannig að ferðaþjónustufyrirtækin, mér kom þetta á óvart — þar er talað um 17% af því sem kallað er innlendar þáttatekjur, hlutur ferðaþjónustunnar í verðmætasköpuninni á Íslandi er 17% 2007 en í áliðnaði hver? Af rekstrinum 5%. Það er munurinn. Þrefalt meira kemur frá ferðamennsku. Það er þetta sem við erum að tala um. Ég er annars vegar að tala um það að miðað við orkuiðnað skapa álverin fá störf — og ég legg á það áherslu — og hægt er að sýna það með ýmsum tölum og með ýmsum hætti. Ég er hins vegar að tala um það að jafnvel ferðaþjónustan, hin vanrækta grein ferðaþjónustan, skilar inn til þjóðarbúsins í rekstri þrisvar sinnum meira en áliðnaðurinn.