Þingmál um veiðar á hrefnu og langreyði

Þriðjudaginn 17. mars 2009, kl. 14:05:34 (5431)


136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

þingmál um veiðar á hrefnu og langreyði.

[14:05]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nú vill svo til að í dag verða rædd þingmannamál þegar atkvæðagreiðslum um stjórnarfrumvörp er lokið. Það er ánægjulegt að ræða eigi þingmannamál á þinginu, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vakti athygli á í gær. Ég verð þó að segja að þrátt fyrir að 12 mál séu á dagskrá sakna ég eins þingmannamáls, þ.e. máls frá 36 þingmönnum, tillögu til þingsályktunar um veiðar á hrefnu og langreyði. En einmitt nú er verið að undirbúa veiðar á hrefnu og langreyði. Þetta kom fram í haust með miklum gauragangi og látum í fjölmiðlum en hefur ekki komist á dagskrá þingsins. Þingið hefur raunar ekki haft tækifæri til að ræða ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um veiðar á hrefnu og langreyði, jafnvel þótt 36 þingmenn hafi beðið um að þingið ályktaði um það mál. Mér þykir þetta furðulegt vegna þess að annað mál sem svipað var statt um, með hátt málsnúmer og ætti því að vera seint á dagskránni, var tekið sérstaklega í forgang vegna þess að á því voru svo margir þingmenn en það var sami fjöldi, þ.e. 36 þingmenn.

Hverju sætir þetta, forseti? Vilja flutningsmennirnir (Forseti hringir.) ekki að þetta mál sé flutt eða hefur forseti verið að reyna að koma í veg fyrir umræður um veiðar á hrefnu og langreyði?