Vegaframkvæmdir í Mýrdal

Miðvikudaginn 18. mars 2009, kl. 13:59:21 (5551)


136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

vegaframkvæmdir í Mýrdal.

[13:59]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Já, spurt er um framkvæmdir á Suðurlandi af hv. þingmanni og er ekki óeðlilegt miðað við niðurstöðu helgarinnar. Hún nefndi það réttilega að deilur væru innan sveitarfélagsins. Sannarlega hef ég fundið fyrir því. Það hafa komið til mín hópar sem hafa talað fyrir þeim leiðum sem til greina koma og hvernig skipulagsnefnd hefur klárað sín mál og allt það. Ég hef ekki tekið afstöðu til þess vegna þess að heimamenn eru ekki búnir að því og Vegagerðin er ekki búin að því og Siglingastofnun ekki heldur en Siglingastofnun þarf að koma að þessu líka út af grjótvörn. Þess vegna höfum við leitt saman bæði Vegagerð og Siglingastofnun í þá undirbúningsvinnu sem er í gangi við að finna lausnir og hvaða leið skuli valin. En eins og hv. þingmaður fjallaði um þá er þetta ekki inni á samgönguáætlun. Það eru allir þingmenn meðvitaðir um að samgönguáætlun var skorin niður um 6 milljarða af síðustu ríkisstjórn til nýframkvæmda. Nú er verið að vinna að því sem er hægt að bjóða út á árinu 2009.

Í svari mínu við fyrirspurn frá hv. þm. Kjartani Ólafssyni, sem jafnframt er á þessu svæði, þá gat ég þess að það bíður næstu ríkisstjórnar að klára fjögurra ára áætlun og 12 ára áætlun og leggja þær fyrir Alþingi næsta haust.

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr mig beint hvort ég hafi tekið afstöðu og svar mitt er nei, ég hef ekki gert það. Ég hef hins vegar fylgst vel með þessari vinnu og mun gera það áfram. En mig langar kannski til að snúa þessu við og spyrja hv. þingmann hvort hún hafi tekið afstöðu til hvaða leið eigi að fara í Mýrdalnum.