Framkvæmd samgönguáætlunar

Miðvikudaginn 18. mars 2009, kl. 15:28:10 (5588)


136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

framkvæmd samgönguáætlunar.

382. mál
[15:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Tilefni fyrirspurnar minnar var einmitt yfirlýsing hæstv. ráðherra um að færa ætti áherslurnar frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og vísað í það að ráðast þyrfti í mannaflsfrekar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu vegna atvinnuástandsins þar.

Ég vil þá enn þá ítreka að það er auðvitað þannig í vegaframkvæmdum að sá mannafli sem nýtist til vegaframkvæmda er ekki bundinn við þau svæði þar sem framkvæmdirnar fara fram. Af þeirri ástæðu er ekki nauðsyn á því að flytja til verkefni enda held ég að þá væri hægt að horfa til atvinnuástands á fleiri stöðum en á höfuðborgarsvæðinu. Því auðvitað þarf víða að huga að því og ég nefni t.d. Héraðið og Egilsstaði en þar er byggt mjög á verktakastarfsemi og öflugir verktakar þaðan hafa verið að vinna um allt land. Nú er slæmt atvinnuástand á Egilsstöðum og er þá ekki rétt að horfa til þess?

Meginmálið er: Er hæstv. ráðherra, eins og kemur fram í yfirlýsingum hans, að breyta um stefnu? Ætlar hann að hverfa frá meginmarkmiðum samgönguáætlunar eingöngu til að framkvæmdirnar geti farið fram í Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæmi? Ég held að það sé rangt og áfram eigi að byggja á því að vegaframkvæmdir séu til að stytta leiðir og verið sé að auka umferðaröryggi og færa byggðir í nánara (Forseti hringir.) samband til að byggja upp heildstæðari atvinnu- og búsetusvæði.