Hugmyndir Salt Investments í heilbrigðisþjónustu

Mánudaginn 23. mars 2009, kl. 15:27:43 (5639)


136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

hugmyndir Salt Investment í heilbrigðisþjónustu.

[15:27]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi segja það að ég hlakka til að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um Tysabri á miðvikudaginn. En það sem mig langar að ræða um í dag er að í Fréttablaðinu síðastliðinn laugardag er haft eftir hæstv. heilbrigðisráðherra, Ögmundi Jónassyni, að hann sé, með leyfi forseta: „opinn fyrir hugmyndum Róberts Wessman um að fyrirtæki hans, „Salt Investments“, flytji sjúklinga hingað til lands í samstarfi við bandarísku heilbrigðisstofnunina Mayo Clinic.“ Hann setji þó fyrirvara um hlutverk ríkisins í þessu verkefni sem er auðvitað rétt nálgun.

Ég verð að segja að það er ánægjulegt að heyra nýjan og breyttan tón í hæstv. heilbrigðisráðherra og ég spyr hvort hér sé um sama mann að ræða og hefur haft allt á hornum sér gagnvart því að aðrir en opinberir aðilar veiti heilbrigðisþjónustu.

Ég fagna hins vegar orðum hans sem fela m.a. í sér opnunarmöguleika á aukinni notkun á nýjum skurðstofum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eins og ég skil málið. Mayo Clinic í Bandaríkjunum er ein virtasta heilbrigðisstofnun í heiminum og formlegt samstarf við hana á sviði heilbrigðismála felur í sér mikla viðurkenningu á íslenskri heilbrigðisþjónustu og skapar einstakt tækifæri fyrir íslenskt heilbrigðisstarfsfólk. Við eigum eitt best menntaða heilbrigðisstarfsfólk í heimi og góðan aðbúnað á heilbrigðisstofnunum.

En íslenskt heilbrigðiskerfi getur sinnt fleirum en það gerir í dag. Við höfum umframgetu sem hægt er að nýta í þágu erlendra sjúklinga. Um leið sköpum við fleiri störf hér á landi, öflum okkar mikilvægrar reynslu og þekkingar og fáum gjaldeyristekjur til landsins. Mörg hundruð íslenska lækna eru starfandi erlendis en vildu gjarnan fá tækifæri til að flytja heim. Við stöndum frammi fyrir því að það er yfirvofandi atvinnuleysi meðal íslenskra hjúkrunarfræðinga sem er algjörlega ný staða í íslenskri heilbrigðisþjónustu þar sem hefur verið viðvarandi skortur á hjúkrunarfræðingum til starfa. Og við búum yfir þekkingu og aðstöðu sem hægt er að nýta til gagns fyrir sjúklinga sem eru á biðlista eftir heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum.

Ég vil því spyrja hæstv heilbrigðisráðherra um áform hans á útflutningi á íslenskri heilbrigðisþjónustu og hvernig hann sér hlutverk Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í því sambandi.