Arðgreiðslur í atvinnurekstri

Mánudaginn 23. mars 2009, kl. 15:53:53 (5650)


136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

arðgreiðslur í atvinnurekstri.

[15:53]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl):

Herra forseti. Það er alltaf ánægjulegt þegar fyrirtæki skila hagnaði, það skapar öryggi hjá starfsfólkinu og ákveðna vissu hjá því um áframhaldandi atvinnu. Það er líka ánægjulegt þegar fyrirtæki eru rekin þannig að eigendur þeirra láta sig hag starfsfólksins varða og það skiptir náttúrlega mjög miklu máli hvernig starfsmannastefna fyrirtækja er, líka hvers konar stefnu almennt fyrirtækin reka. Það er eitthvað að ef fyrirtæki hugsa eingöngu um að fá eins mikinn pening og mögulegt er og fá út sem mestan arð, jafnvel með klækjum eins og hv. þm. Atli Gíslason benti á — þegar menn eru farnir að segja að svo og svo mikil viðskiptavild gefi fyrirtækinu svo og svo mikinn hagnað og sýni svo miklar eignir að hægt sé að greiða mikinn arð. Ég vona að þetta verði tekið til umfjöllunar.

Hér var rætt um HB Granda og hvernig það fyrirtæki fór að ráði sínu. Ég vona að önnur sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi geti farið eftir því sem HB Grandi gerði og hækkað laun starfsfólksins. Af því að fiskveiðistjórnarkerfið er nú jafnfrábært og sumir vilja vera láta hlýtur að vera hagnaður á þeim fyrirtækjum og þá hljóta þau að geta greitt verkafólki hærri laun, sem veitir ekki af á þessum tímum.

Ég treysti mér ekki til að tala um viðskiptavild allra fyrirtækja, herra forseti. En ég veit um eitt fyrirtæki sem ég held að hafi mjög góða viðskiptavild, og að sönnu, þó að það sé ekki dýrt í umfangi, en það er pylsuvagninn Bæjarins bestu sem er hér við Reykjavíkurhöfn.