Atvinnuleysistryggingar

Mánudaginn 23. mars 2009, kl. 18:47:39 (5703)


136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

atvinnuleysistryggingar.

376. mál
[18:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem telja verður jákvætt enda hefur ekki verið ágreiningur um það í félagsmálanefnd. Verið er að framlengja til ársloka þetta nýja úrræði, sem tekin var ákvörðun um í haust að koma á. Miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið held ég að það hafi náð að talsvert miklu leyti þeim tilgangi sínum að hvetja vinnuveitendur til að lækka starfshlutfall starfsmanna frekar en segja þeim upp og þess vegna er um jákvætt mál að ræða.

Það segir sig sjálft að það hlýtur að vera eðlilegra og heppilegra að vinnuveitendur fari þessa leið, að lækka starfshlutfall þeirra sem hjá þeim starfa frekar en segja þeim upp, í von um að þeir erfiðleikar sem fyrir hendi eru í efnahagslífinu gangi fljótlega yfir eða alla vega innan einhvers skikkanlegs tíma þannig að unnt verði að hækka starfshlutfallið aftur. Í rauninni ættu báðir að hagnast á þessu, bæði atvinnurekandinn og launamaðurinn. Launamaðurinn er auðvitað í betri stöðu að halda starfi sínu og vinnuveitandinn losnar við að segja fólki upp og þurfa svo hugsanlega að ráða nýtt og óvant fólk í staðinn þegar betur árar. Þetta er auðvitað mikilvægt og gott úrræði og mikilvægt að taka þá ákvörðun sem verið er að gera með frumvarpinu, þ.e. að framlengja þennan tíma.

Nú á ég ekki sæti í félagsmálanefnd þannig að ég hef ekki haft tækifæri til að fylgjast með framgangi málsins en það eru nokkrar spurningar sem vakna þegar þetta nefndarálit og breytingartillögur eru skoðaðar. Í fyrsta lagi velti ég því fyrir mér hvort í starfi nefndarinnar hafi komið fram upplýsingar um það af hálfu tillöguflytjenda hvort skoðað hafi verið hvort ástæða hefði verið til að framlengja gildistímann lengur en til ársloka. Það er kannski eðlilegt að þetta ákvæði sæti endurskoðun með nokkuð reglulegu millibili en ég velti fyrir mér hvort það hafi ekki komið til skoðunar að hafa gildistímann lengri en þarna er gert ráð fyrir, sérstaklega með tilliti til þess að hætt er við að sá samdráttur sem nú á sér stað í atvinnulífinu vari lengur en til ársloka — í fljótu bragði gæti maður ímyndað sér að þörf yrði á þessu úrræði, ekki bara til áramóta heldur því miður á næsta ári líka. Ég velti fyrir mér hvort þetta atriði hefur verið rætt í störfum nefndarinnar og bið hv. framsögumann nefndarinnar að svara því, eða aðra úr nefndinni sem voru viðstaddir umræðuna.

Annað atriði sem þarna er lagt til er að Vinnumálastofnun fái auknar heimildir til að stunda eftirlit með framkvæmd laganna og að nánar sé kveðið á um skyldur atvinnuveitenda til að upplýsa stofnunina um breytingar sem verða á högum þeirra. Þetta er auðvitað mjög jákvætt. Það er mjög nauðsynlegt í tilvikum sem þessum að Vinnumálastofnun, sem er sá aðili sem með þennan málaflokk fer, hafi nægilegar heimildir til að stunda eftirlit þannig að ekki sé um misnotkun að ræða eins og alltaf er viss hætta á í sambandi við ívilnandi aðgerðir af þessu tagi. Það er auðvitað þannig að því fleiri sem misnota svona úrræði því síður er hægt að koma til móts við þá sem raunverulega þurfa á því að halda þannig að allir eiga að geta verið sammála um að það sé mikilvægt að hafa úrræði sem sporna við misnotkun á ákvæðum af þessu tagi. Við minnumst þess að þegar umræður fóru fram um þetta mál á haustþingi vöktu ýmsir hv. þingmenn máls á því að þarna kynni að verða um ákveðna misnotkun að ræða. Sjálfsagt eru einhver dæmi um það, ekki þekki ég það, en ég held engu að síður að full ástæða sé til að taka jákvætt í viðleitni af hálfu nefndarinnar og tillöguflytjanda til að þrengja þetta með þeim hætti að unnt sé að koma í veg fyrir eins og hægt er að misnotkun eigi sér stað.

Þriðja atriðið sem ég vildi spyrja um í þessu sambandi — og beini því bæði til hv. þm. Þuríðar Backman og eftir atvikum til hv. þm. Atla Gíslasonar, sem einnig á sæti í nefndinni — er hugsunin á bak við þá breytingu sem hér er gert ráð fyrir varðandi skilgreiningu á sjálfstætt starfandi einstaklingum. Þarna er verið að breyta þessu á þann veg að þeir sem starfa hjá eigin einkahlutafélagi, hlutafélagi eða sameignarfélagi verði miðað við þessi lög skilgreindir sem launamenn og ég velti fyrir mér hver rökin á bak við það eru. Þarna verður sem sagt annars vegar um það að ræða að þeir sem starfa við atvinnurekstur í eigin nafni eru skilgreindir sem sjálfstætt starfandi en hins vegar eru þeir sem starfa hjá eigin einkahlutafélagi, sem í dag eru, eins og við þekkjum, afskaplega margir af þeim sem við venjulega lítum á sem sjálfstætt starfandi — þeir starfa hjá einkahlutafélagi sem hugsanlega er alfarið í þeirra eigu eða fjölskyldu þeirra. Ég velti fyrir mér hvaða hugsun sé á bak við þessa breytingu. Það kann vel að vera að fyrir henni séu góð og gild rök en ég sé ekki í fljótu bragði að það komi fram í nefndarálitinu.

Í fjórða og síðasta lagi velti ég því fyrir mér — það er í lok annarrar málsgreinar nefndarálitsins og snertir þá breytingu sem varðar fæðingarorlofið — hvers vegna þessi tala, 24 mánuðir, er valin í þessu sambandi. Talað er um að sá sem tekur fæðingarorlof geti geymt áunna atvinnuleysistryggingu í 24 mánuði. Ég spyr: Við hvaða tímafresti er miðað í þessu sambandi? Af hverju er miðað við 24 mánuði? Ég segi þetta ekki af því að ég hafi í sjálfu sér einhverjar athugasemdir við það en mér finnst ekki liggja ljóst fyrir hvers vegna þessi viðmiðun er valin.