Náttúruvernd

Þriðjudaginn 24. mars 2009, kl. 17:56:22 (5799)


136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[17:56]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að við hv. þm. Kjartan Ólafsson séum í grunninn sammála um að hvort tveggja geti farið saman, verndun og nýting. Það er bara spurning um það hvernig við skipuleggjum þá starfsemi og nýtingu og verndun sem fram fer, hvort sem það er á miðhálendinu eða annars staðar á landinu eða þá á höfuðborgarsvæðinu.

Mér finnst mjög mikilvægt að við tölum þannig og gerum okkur grein fyrir því að ríkisstofnun á borð við Vatnajökulsþjóðgarð og þjóðgarða landsins er stofnun allra landsmanna. Við sem búum á mölinni eigum jafnmikið í þeim stofnunum og þeir sem búa í hinum dreifðu byggðum eða á svæðum þjóðgarðanna. Þjóðgarðar eru fyrir alla landsmenn. Þjóðgarðar eru líka fyrir ferðamenn, hvort sem þeir eru útlendir eða innlendir. Við þurfum líka að passa okkur á því að búa ekki sífellt til þessa togstreitu á milli suðvesturhorns og landsbyggðar. Nóg er samt þegar verið er að ráðast í verkefni sem að langstærstum hluta skapa ný, verðmæt og góð störf á landsbyggðinni. Um það snýst Vatnajökulsþjóðgarður ekki síst, atvinnusköpun á landsbyggðinni. Gerum ekki lítið úr því þó að þannig vilji til að framkvæmdastjóri stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs sé staðsettur í Reykjavík. Það er, eins og áður var bent á, eitthvað sem hægt er að breyta þegar aðstæður skapast til og ekkert sem útilokar að það geti orðið með öðrum hætti í framtíðinni.