Náttúruvernd

Þriðjudaginn 24. mars 2009, kl. 17:58:20 (5800)


136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[17:58]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og get tekið undir það sem hér kom fram. Vatnajökulsþjóðgarður mun skapa mikil tækifæri í ferðaþjónustu og mörg störf sem tengjast því. Þetta er flétta, fléttulisti eins og sumir kannast við, þar sem ferðaþjónustuaðilar af ýmsum toga koma saman og nýta og njóta hver um sig, hvort heldur þeir sem leigja bíla, rútur eða matsölustaðir, hótel o.s.frv. og margföldunaráhrifin eru mikil.

Ég vil leggja áherslu á það, frú forseti, að við þurfum að ná samstöðu um þetta. Fyrr í dag talaði hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson um að álit væri að koma frá efnahags- og skattanefnd um fjármögnunarsamning fyrir álverið í Helguvík.

Ég gerðist svo djarfur, frú forseti, að kalla fram í og spyrja hvar ætti að virkja af því að hv. þingmaður hefur verið alfarið á móti því að virkjað væri í neðri hluta Þjórsár. Hann vill samt skaffa rafmagn og þá verðum við að spyrja hvaðan það eigi að koma. Það þarf að vera samsvörun þegar við erum að ræða þessi mál í þinginu á milli þess sem við erum að segja í hinum ólíku flokkum. Það er ekki hægt að banna öðrum megin en vilja heimila framkvæmdir hinum megin þannig að við þurfum að ná þessari samsvörun. Við þurfum að ná sátt í þessum málaflokki og við þurfum að afla sem mests gjaldeyris fyrir þessa þjóð, hvort sem það er af auðlindunum sem eru náttúruauðlindir, vatnsafl, sjávarútvegur eða náttúruperlurnar, (Gripið fram í: Landbúnaðurinn.) eða landbúnaðinum o.s.frv.