Raforkulög

Þriðjudaginn 24. mars 2009, kl. 23:18:21 (5849)


136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

raforkulög.

398. mál
[23:18]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við höfum hér til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum. Það hefur komið hér fram að allir nefndarmenn styðja frumvarpið. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé kannski nauðsynlegt fyrir eitt fyrirtæki, Orkuveitu Reykjavíkur. En það vakti athygli mína að í umsögn frá Orkusölunni kemur fram að þar telji menn að hér sé um að ræða mál sem geti raskað samkeppnisstöðu Orkusölunnar. Ég vil spyrja hv. þingmann um það. Og kannski hefði verið áhugavert ef hæstv. iðnaðarráðherra hefði verið við þessa umræðu en hann hefur fjallað hvað mest um Orkuveitu Reykjavíkur og má sjá það af ýmsum skrifum hans að það er fyrirtæki sem hann hefur haft mikinn áhuga á, að ég tali nú ekki um dótturfyrirtækið REI sem hefur orðið tilefni mikilla skrifa hjá hæstv. ráðherra. Við höfum ekki notið þess í kvöld að hæstv. iðnaðarráðherra sæi sér fært að vera við umræðuna. Má vera að hann hafi einhverjar gildar afsakanir fyrir því að vera ekki viðstaddur umræðu um þau merku mál sem hann hefur lagt fram í þinginu en við allar venjulegar aðstæður hefði verið eðlilegt að hann væri hér til staðar.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill upplýsa að hæstv. ráðherra er í húsinu og það er verið að sækja hann í salinn.)

Hann hefur a.m.k. ekki sést hér í þingsalnum, það get ég vottað. Það má vel vera að hann sé í húsinu og það þykir mér vænt um. Hann hlýðir þá væntanlega á mál þingmanna þar sem hann er staddur, hvar sem það er.

Hæstv. forseti. Ég vil fara hér yfir umsögn Orkusölunnar og til að það komi fullkomlega í ljós hvað Orkusalan segir ætla ég að lesa beint upp úr umsögninni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við yfirferð á nýjum þingskjölum á vef Alþingis hefur komið í ljós frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

Orkusalan ehf. er dótturfyrirtæki Rariks ohf. og er tilgangur þess meðal annars að annast framleiðslu og sölu á raforku. Með breytingum á raforkulögum í janúar 2005 var sala á raforku gefin frjáls, gagngert í þeim tilgangi að innleiða samkeppni í raforkusölu. Orkusalan ehf. starfar einungis á samkeppnismarkaði og er með næstmestu markaðshlutdeild í raforkusölu á almennum markaði á eftir Orkuveitu Reykjavíkur, auk þess að reka nokkrar virkjanir víða um land. Þær breytingar sem gerðar voru á raforkulögum er varða fyrirtækjaaðskilnað milli einkaleyfis og samkeppnisstarfsemi var ætlað að stuðla að virkari samkeppni á raforkumarkaði. Sú breyting var fagnaðarefni, m.a. fyrir Orkusöluna ehf.

Það frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi um frestun á 14. gr. raforkulaga um 6 mánuði veikir og getur haft skaðleg áhrif á samkeppnisstöðu Orkusölunnar ehf. Orkusalan ehf. hefur í nokkurn tíma haft áhyggjur af því sem gæti talist til óeðlilegrar samtvinnunar á einkaleyfisstarfsemi annars vegar og samkeppnisstarfsemi hins vegar. Með 14. gr. raforkulaganna var ætlunin að koma í veg fyrir slíka samtvinnun og tryggja með því skilvirkari samkeppni á raforkumarkaði.

Þá gagnrýnir Orkusalan ehf. þau vinnubrögð sem nú eru viðhöfð við breytingu á raforkulögunum. Það að ekki sé leitað álits hjá hagsmunaaðilum eins og Orkusölunni ehf. um frumvarpið verður að teljast sérkennilegt. Átelur Orkusalan ehf. þessi vinnubrögð.“

Undir umsögnina ritar Magnús Kristjánsson framkvæmdastjóri.

Hæstv. forseti. Það kemur í ljós að einhver flýtibragur hefur verið á þessu frumvarpi þegar ekki var leitað álits helstu orkufyrirtækja í landinu þegar þetta frumvarp var lagt fram og unnið í nefndinni. Ég dreg ekkert úr því að það geti vel verið að Orkuveitan hafi átt við þannig mál að stríða að undanförnu að þeim hafi illa tekist að ganga frá sínum málum samkvæmt þeim lagafyrirmælum sem fyrir lágu í raforkulögunum en það er jafnframt ljóst að hæstv. iðnaðarráðherra hefur talið sér skylt að verða við þeirri ósk Orkuveitunnar að flytja þetta mál og fresta gildistökunni. Ef ég má vitna í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra við framlagningu þessa máls þá segir hann þar m.a., með leyfi forseta:

„Í síðasta mánuði fór Orkuveita Reykjavíkur þess hins vegar á leit við iðnaðarráðherra að hann beitti sér fyrir því að gildistöku þeirra ákvæða raforkulaga sem lúta að aðskilnaði samkeppnis- og sérleyfisþátta yrði frestað frá 1. júlí nk. til 1. janúar 2010. Orkuveitan gaf upp sem ástæðu fyrir ósk sinni að orðið hefðu breytingar á fjárhagslegu umhverfi orkufyrirtækja eins og annarra fyrirtækja í landinu. Það var mat forsvarsmanna fyrirtækisins að uppskipting á þessum tíma gæti hugsanlega tafið fyrir gerð lánasamninga. Hins vegar standa vonir til að fyrirtækið ljúki fjármögnun og gerð nýrra lánasamninga á síðari hluta þessa árs.“

Það er sem sagt tekið tillit til þessa, hæstv. forseti, en ekki til þess að önnur fyrirtæki eru á þessum samkeppnismarkaði sem líta svo á að þarna sé verið að ganga á rétt þeirra og samkeppnisstöðu þeirra sé ógnað með þessari breytingu.

Það má ljóst vera að sum fyrirtæki hafa tekið þarna harðar á til að ljúka lagaskyldu sinni við uppskiptinguna en Orkuveita Reykjavíkur sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir þekkir líka vel til, og af því að hún er stödd í salnum núna (Gripið fram í.) væri gott að fá skýringar frá henni sem margreyndum stjórnarmanni í Orkuveitu Reykjavíkur. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá raunhæfar skýringar á því hvað þarna er á ferðinni og af hverju ekki var tekið tillit til annarra orkufyrirtækja.

Fyrst hæstv iðnaðarráðherra er kominn í salinn væri jafnframt áhugavert að fá að heyra frekari útlistanir hjá honum um stöðu Orkuveitu Reykjavíkur sem hann hlýtur að hafa skoðað mjög gaumgæfilega í tengslum við framlagningu þessa máls. Það kemur fram í þingskjölum og í ræðu hæstv. ráðherra að Orkuveitan hafi átt í erfiðleikum með að fjármagna sig. Er það svo að þarna sé kannski einhver vá fyrir dyrum hjá þessu stóra fyrirtæki sem Orkuveita Reykjavíkur er? Það skiptir auðvitað mjög miklu máli hvernig sem á það er litið, bæði fyrir Reykvíkinga og fyrir þjóðarbúskap okkar allan. Þetta er risastórt fyrirtæki með stór og mikil verkefni sem það stendur í núna og auðvitað skiptir máli hvernig virkjanaframkvæmdir til takast hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Ég tala nú ekki um þar sem til stendur að Orkuveitan sjái álverinu í Helguvík fyrir raforku. Er einhver hætta þarna á ferðinni, hæstv. ráðherra raforkumála? Er einhver hætta á ferðinni að Orkuveita Reykjavíkur geti ekki staðið við þau virkjunaráform sem Orkuveitan hefur til að sjá Helguvík fyrir raforku?

Í því ástandi sem nú er horfa menn til þessara orkufreku framkvæmda og að þær geti orðið til þess að hér verði til störf sem sárlega vantar um þessar mundir. Auðvitað er það svo að ekki eru báðir stjórnarflokkarnir þeirrar skoðunar. En ég verð að lýsa því yfir að ég er mjög ánægð með að Samfylkingin virðist ætla að halda sínu striki varðandi það að klára samninga um álverið í Helguvík og ef Samfylkingin eða a.m.k. hæstv. iðnaðarráðherra í þeim flokki getur knúið það fram að við klárum þann samning hér í gegnum Alþingi.

Nú hagar þannig til að málinu var í rauninni vísað til iðnaðarnefndar en tefst þar einhverra hluta vegna óeðlilega mikið, a.m.k. hafa menn ekki getað svarað því hér hvenær á að afgreiða málið úr nefndinni. (Gripið fram í: … í gær.) Það er alla vega gott að því er lýst hér yfir í frammíkalli að það eigi að klára málið. Það hefur ekki verið hægt að fá þau svör í dag. (Gripið fram í.) Það er búið að spyrja að því undir liðnum Störf þingsins. (Gripið fram í.) Ég bendi hv. þingmanni á það …

(Forseti (ÞBack): Ekki frammíköll.)

… að hún getur komið hér bæði í ræðu og andsvar og svarað þessari spurningu. Ætlar hv. formaður iðnaðarnefndar að klára málið í iðnaðarnefnd eða ætla hv. þingmenn Vinstri grænna að koma í veg fyrir að hægt verði að ljúka afgreiðslu málsins? Alla vega liggja fyrir yfirlýsingar um það, eins og við vitum auðvitað, að hv. þingmenn Vinstri grænna styðja ekki þetta mál.

Það getur vel verið að þetta verði skýrt hér í umræðunni og væri fengur að því að fá þau svör. Ég veit að mjög margir bíða eftir því að fá þau svör hvort það sé einlægur vilji stjórnarflokkanna að ljúka því máli á þinginu. Boðað hefur verið til kosninga eftir stuttan tíma og ef ekki á að ljúka þessu máli erum við í slæmum málum varðandi það að skapa störf hér á landi.

Ég trúi ekki öðru en að menn hafi einlægan vilja í þessu fyrir utan auðvitað hv. þingmenn Vinstri grænna sem eru almennt á móti því að nýta orkuauðlindir okkar (ÁI: Almennt á móti ruglinu, já.) Já, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir getur kallað það rugl að nota orkuauðlindir okkar til raforkuframleiðslu og til atvinnusköpunar. Ég reikna ekki með því að mjög margir aðrir deili þeirri skoðun nema hugsanlega harðasti kjarninn í stuðningsmannaliði Vinstri grænna. En almennt held ég að það sé skoðun Íslendinga að nýta beri orkuauðlindir til atvinnusköpunar. Það er sú meginskoðun sem menn hafa að nýta beri orkuauðlindir til að skapa störf.

Ég vonast til að fá svör við því hér í fyrsta lagi: Hver var meiningin með því að leita ekki til Orkusölunnar sem lítur svo á að verið sé að mismuna fyrirtækjum á samkeppnismarkaði? Og í öðru lagi af því að staða Helguvíkurmálsins svokallaða spannst inn í þessa umræðu: Ætla stjórnarflokkarnir að gera það kleift að hægt verði að klára það mál fyrir þinglok?

Það liggur fyrir einlægur vilji Sjálfstæðisflokksins til að styðja það mál. (Gripið fram í: Iðnaðarráðherra styður það.) Iðnaðarráðherra hefur lýst því yfir og ég treysti því að hann hafi stuðning í sinni ríkisstjórn. (Iðnrh.: Þetta er minnihlutastjórn …) Þetta var gott innlegg hjá hæstv. iðnaðarráðherra. Við eigum kannski von á að fá einhverja samninga um það hvernig og hvenær þetta mál fer í gegnum þingið þannig að við getum sem fyrst farið að horfa til þess að þarna verði eðlileg atvinnusköpun þar sem nýting orkuauðlinda er forsenda.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta meira og treysti því að fá skýr svör hjá hæstv. iðnaðarráðherra um þau mál sem ég reifaði hér.