136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

fundarstjórn.

[00:13]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Mig undrar mjög hvernig sjálfstæðismenn haga sér hér í kvöld. Það eru ekki nema nokkrar vikur síðan ég var með þeim í ríkisstjórn. Þá komu þeir hér upp og hæddu og spottuðu þá þingmenn stjórnarandstöðunnar sem ekki töldu unnt að vinna svolítið fram á nótt. Ég skil þetta satt að segja ekki. Það er ábyrgðarleysi af Sjálfstæðisflokknum hvernig hann hefur hagað sér hér í vetur eftir að hann lenti í stjórnarandstöðu. Hann hefur staðið fyrir linnulausu málþófi alveg eins og hann hefur gert í kvöld bara til þess að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin nái fram þjóðþrifamálum.

Hér talaði gamall sjómaður, hv. þm. Grétar Mar Jónsson. Hann vílar það ekkert fyrir sér að vaka til að vinna þau verk sem honum ber skylda til. Okkur ber skylda til þess að hlýða því sem þingið samþykkir. Þingið samþykkti að vinna fram á nótt.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að það er minnihlutastjórn sem nú er við völd. Það er ekki meirihlutastjórn Það er ekki þannig að ríkisstjórnin sé að troða einhverjum vinnuskyldum á þingið. Nei, það var stjórnarliðið ásamt flokkum sem eru utan stjórnar sem tóku ákvörðun (Forseti hringir.) um þetta. Vilja hv. þingmenn ekki hlýða því sem (Forseti hringir.) þingið samþykkir?