136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

fundarstjórn.

[00:15]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan finnst mér skipta mjög miklu máli að menn hafi einhverja skilgreiningu á því hvernig eigi að standa hér að verkum. Ég tek undir með hv. þm. Pétri Blöndal að mér finnst mjög mikilvægt að við náum að ræða frumvarpið um ábyrgðarmenn sem fyrst og ég tek undir það og tel mjög brýnt að ræða um breytingar á skaðabótalögum. Það eru þau tvö mál sem mér finnst mjög brýnt að verði afgreidd á þeim tíma sem eftir er af þessari dagskrá. Ég hefði viljað mælast til þess við virðulegan forseta að það væri hreinlega ákveðið að þannig yrði staðið að málum, að þau tvö mál skyldu afgreidd, það eru þau sem eru brýn, og yrði gengið frá því.

Við hv. þm. Grétar Mar Jónsson vil ég segja þetta: Ég hef nú talað í tveimur málum og flutt mjög merkar og góðar ræður og komið með mjög mikið og málefnalegt innlegg, það er ekki málþóf. Og þó að þingmaðurinn sé orðinn þreyttur á að hlusta er það bara þannig (Forseti hringir.) að á Alþingi á að (Forseti hringir.) ræða málin til þess að gengið sé frá vandaðri lagasetningu. (Forseti hringir.) Það er liður í vandaðri lagasetningu (Forseti hringir.) að þingmenn vinni og séu vel vakandi við þau störf sem þeir (Forseti hringir.) vinna.