136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[01:18]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, og formanns viðskiptanefndar, hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, sem voru rakin hér. Ég tel að hér hafi verið fluttar málefnalegar ræður um það frumvarp sem um er að ræða og hef litlu við það að bæta.

Ég tek undir það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni sagði í lok ræðu sinnar þegar hann hvatti til þess að frumvarpið yrði samþykkt og gerði grein fyrir því með hvaða hætti hann hefði staðið að þessu máli. Ég vil ekki ljúka máli mínu um þetta frumvarp án þess að þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir það hvernig hann hefur unnið að því að koma þessu máli fram alveg frá fyrsta kjörtímabili sínu.

Neytendur á Íslandi hafa haft mikinn á áhuga á þessum málum og Neytendasamtökin hafa lengi barist fyrir því að frumvarpið næði fram að ganga. Gert var samkomulag við Samtök fjármálafyrirtækja til að reyna að ná fram einhvers konar stöðu til að tryggja rétt ábyrgðarmanna en alltaf hefur verið ljóst að það skorti sérstök lög til að lánastarfsemi hvað þetta varðar yrði með svipuðum hætti og í nágrannalöndum okkar. Nú sér fyrir endann á þeirri baráttu, það er að vinnast sigur með því að Alþingi samþykki það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Ég tel að gerðar hafi verið verulega miklar breytingar til bóta í meðferð nefndarinnar á frumvarpinu og málið sé nú í þeim farvegi að það skipti miklu að reyna að ganga frá því og samþykkja það þannig að það verði að lögum sem fyrst.

En ég vil ítreka það að ég tel að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson eigi miklar þakkir skildar fyrir það hvernig hann hefur staðið að þessu máli og unnið ötullega að framgangi þess.