Losunarheimildir á koltvísýringi í flugi

Miðvikudaginn 25. mars 2009, kl. 13:47:52 (5903)


136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

losunarheimildir á koltvísýringi í flugi.

[13:47]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um losunarheimildir á koltvísýringi í flugi. Tilskipunin um að fella flug í Evrópu undir viðskiptakerfi með útblástursheimildir á koltvísýringi á að taka gildi 1. janúar 2012 en fer strax að hafa áhrif 1. janúar 2010 því að þá hefst tímabil þar sem flugfélög safna reynslu sem veitir hlutfallslegan aðgang að potti 85% ókeypis heimilda. Gildistakan er í raun eftir níu mánuði og eftir það verður ekkert svigrúm til samninga við ESB. Þess vegna er mikilvægt að samningsmarkmiðin séu klár og verði sett fram áður en það verður of seint. Þess vegna spyr ég hæstv. umhverfisráðherra hvort hún telji ekki mikilvægt að sótt verði um undanþágur á kvótakerfinu fyrir innanlandsflugið.

Ég spyr einnig hvort hún telji ekki nauðsynlegt að fella Færeyja- og Grænlandsflugið undir skilgreiningu um innanlandsflug.

Hæstv. forseti. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir íbúa þessa lands. Innanlandssamgöngukerfið byggist að stórum hluta á flugi og kostnaður við kaup á kvóta lendir á endanum á þeim sem nýta sér innanlandsflugið, sem flestum finnst kosta nógu miklar fjárhæðir nú þegar. Flugfarseðlar þyrftu sem sagt að hækka verulega til að greiða fyrir losunarheimildir ef ekki verður brugðist við og sótt um undanþágur.

Fyrir utan það meginmarkmið ESB að draga úr losun koltvísýrings á flugi er það eitt markmiða með kvótasetningunni að umferð frá flugi á stuttum vegalengdum færist yfir á aðrar umhverfisvænni samgöngugreinar eins og járnbrautarlestir og áætlunarbifreiðar. Það á ekki við á Íslandi og þess vegna er mjög mikilvægt að við fáum að halda innanlandsfluginu þannig að þetta raski því ekki.

Það sjá allir að mun umhverfisvænna er að nýta innanlandsflugið (Forseti hringir.) en að beina allri umferð á vegi og fólksbíla, (Forseti hringir.) við þær aðstæður sem hér eru.