136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[00:35]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Hér ræðum við frumvarp um frístundaveiðar, kvótasetningu á frístundabáta. Inni í þessu frumvarpi voru reyndar aðrir þættir eins og um að ekki þyrfti að borga veiðileyfagjald á rækju nema á þá rækju sem væri veidd.

Það má auðvitað segja að sorglegt er hvað menn ætla að ganga langt í því að setja á kvóta þrátt fyrir aðvaranir um að það sé brot á mannréttindanefndaráliti Sameinuðu þjóðanna að fara þá leið. Frístundabátar voru á síðasta ári í verulegri samkeppni við aðrar trillur og smábáta um leigu á veiðiheimildum. Ég hefði viljað sjá að þessar frístundaveiðar væru ekki kvótasettar. Þær væru fyrir utan kvóta og þar af leiðandi ekki í samkeppni við aðrar trillur sem eru á handfæraveiðum eða krókabáta.

Það er auðvitað brandari að tala um fimm fiska á stöng, tíu kíló. Hvað erum við komin út í? Hvað með þá sem eru að veiða með stöngum á ströndinni? Eða á bryggjusporðum? Í hvað erum við komin og hvað ætlum við að ganga langt í þessu rugli? Eftir því sem mér sýnist í þessu frumvarpi er með ólíkindum hvað menn ætla að ganga langt.

Ég er auðvitað feginn að þetta frumvarp komst hér í þingið og að við getum rætt kosti og galla þess og rætt kannski fiskveiðistjórnarkerfið líka samhliða þessu, vegna þess að þetta er hluti af því og hluti af því sem útgerðarmenn, handhafar kvótans, sægreifarnir svokölluðu vilja alls ekki og það er að hleypa nýjum aðilum inn, þótt það séu frístundabátar sem veiði samtals 250 tonn á ári, sem er brotabrot af öðru, brottkasti eða öðrum kvóta. Við erum með 500 tonn til fiskeldis, (Gripið fram í.) þorskeldis, svokallaðs áframeldis, þar sem smáfiskur er veiddur og látinn stækka. Þar er úthlutað 500 tonnum. Þetta er svo lítil upphæð og þetta eru svo fá tonn og þetta er svo lítill hluti af heildarveiðinni hjá okkur að með ólíkindum er hvað menn treysta sér að ganga langt.

Fyrir nefndina komu Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, og hafði raunverulega allt á móti þessum gjörningi og talaði þar fyrir, eins og við í Frjálslynda flokknum, frjálsum handfæraveiðum. Þar kom líka Magnús Daníelsson, sem er að gera út á sjóstöng, hvalaskoðun og fuglaskoðun, og lýsti sig mjög óhressan með þetta frumvarp.

Þangað kom líka fulltrúi frá LÍÚ en eins og venjulega vilja LÍÚ-menn setja allt í kvóta og deila og drottna yfir veiðiheimildunum, hvernig sem á það er litið.

Við í Frjálslynda flokknum fluttum fyrir nokkrum vikum frumvarp um frjálsar handfæraveiðar og töldum að ef því kerfi væri komið á í íslenskum sjávarútvegi féllu frístundaveiðarnar undir þau lög og reglur sem við vildum að væru þar. Tekið yrði mið af stærð skipa, jafnvel vélarafli og ýmsar takmarkanir yrðu, helgarfrí og annað þess háttar, til þess einfaldlega að byrja að virða álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem telur að fiskveiðistjórnarkerfið hjá okkur sé óeðlilegt, því þar sé fáum útvöldum úthlutað veiðiheimildum og þeim leyft að leigja þær, selja og veðsetja og að þeir sjómenn sem fóru með þetta alla leið fyrir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna eigi að fá bætur.

Við horfum upp á það að bæði fyrri ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn ætla ekki að virða þetta á neinn hátt og þar af leiðandi er ekki hægt að kalla þá stjórnmálamenn sem í þessum fjórflokki eru lýðræðissinna eða mannréttindasinna. Þetta ágæta fólk í þessum flokkum, bæði þingmenn og ráðherrar, virðir ekki mannréttindi eins og það ætti að gera.

Ýmislegt fleira hefur verið gert á síðustu missirum og hefur verið samþykkt hér í þinginu. Geymsluréttur á milli ára var t.d. aukinn úr 20% í 33% sem leiðir það af sér að leiguverð á kvóta er hærra en ella. Veiðileyfagjald sem átti að vera 1.100 millj. kr. fyrir tveimur árum síðan er komið niður í 400 millj. kr. vegna niðurskurðar á þorski, en þótt því hafi verið breytt aftur og við séum nú að veiða 160.000 tonn en ekki 130.000 tonn af þorski er veiðileyfagjald óbreytt.

Þeim ráðherrum og þingmönnum, sem hafa staðið að þessum gjörningum og ætla sér að standa að þeim gjörningum að koma frístundaveiðunum í lög og stuðla þar með að enn frekari brotum á mannréttindum en nú er, verður að refsa í kosningum. En það er spurning hvort ekki verði líka að refsa því fólki fyrir dómstólum sem hefur skrifað undir mannréttindasáttmála en virðir hann ekki og ætlar ekki að virða hann.

Álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna kveður á um að við eigum að fara út úr kvótakerfinu en ekki auka kvótasetningu á skip og báta og fleiri tegundir. En ekkert er hugsað um það og við sýnum ekki neinn vilja til að reyna að laga okkur að áliti mannréttindanefndarinnar.

Það má náttúrlega segja að sjávarútvegur á Íslandi síðustu hundrað árin hafi byggt upp Ísland. Illu heilli tókum við upp svokallað kvótakerfi 1984 og höfum búið við það og unnið eftir því síðan. Þetta kerfi hefur rústað mörgum sjávarbyggðum hringinn í kringum landið og leitt af sér mikla óhamingju og ófarir fyrir fullt af fólki sem á um sárt að binda út af því.

Það er dálítið kaldhæðnislegt að tala við fólk á sumum þessum stöðum í dag þegar efnahagur íslensku þjóðarinnar er nánast hruninn, því þá segir fólkið: Þetta gerðist nú hjá okkur fyrir tíu árum síðan að þegar kvótinn var tekinn í burtu hrundi efnahagur okkar. Þetta gerðist fyrir fimmtán árum þegar kvótinn var seldur og svo koll af kolli.

Það hafa verið nánast hamfarir í sumum sjávarbyggðum á Íslandi í gegnum tíðina frá því að þetta fiskveiðistjórnarkerfi var sett á laggirnar. Þetta gjafakvótakerfi þar sem fáir útvaldir fá leyfi til að leigja kvóta, selja kvóta og veðsetja kvóta.

Hver er svo staðan í dag? Íslenskur sjávarútvegur er yfirveðsettur og stórskuldugur og getur í raun ekki staðið undir þeim væntingum sem til hans eru gerðar. En þrátt fyrir þessar ófarir höldum við auðvitað áfram að veiða fisk, þótt nýir aðilar komi til með að gera það eða jafnvel einhverjir sem hafa skipt um kennitölu eða munu skipta um kennitölu á næstu vikum eða mánuðum. En afleiðingarnar eru svo hrikalegar að öllum alþingismönnum og ráðherrum ætti að vera ljóst hvað við höfum leitt yfir þjóðina með þessu fiskveiðistjórnarkerfi.

Þrátt fyrir að 85% þjóðarinnar segist ekki vilja þetta fiskveiðistjórnarkerfi heldur breytingar og kvótann til þjóðarinnar þrjóskast þingmenn og ráðherrar við og halda áfram. Nú ætla þeir að bæta gráu ofan á svart og bæta við frístundabátum sem veiða með sjóstöngum og hvalaskoðunarbátum sem eru með nokkrar stangir og stoppa kannski í klukkutíma í ferð til að leyfa nokkrum að prófa að veiða fáa fiska.

Svo telja menn að þetta frumvarp sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir, ég veit ekki hvað, rányrkju. Þetta snýst reyndar um að menn eru að verja svokallaða eign eða yfirráðarétt sægreifanna á fisknum í sjónum. Höldum ekki áfram þegar við erum komin með þetta allt í klessu. Höldum ekki áfram að gera svona vitleysu. Leiðréttum okkur. Snúum frekar við og breytum til batnaðar en höldum ekki áfram á þeirri villigöngu sem við erum á.

Frístundabátar mega ekki stunda aðrar veiðar. Í frumvarpinu er að ekki má fara og bjarga sér á þessum bátum yfir vetrartímann. Þannig að ég skil ekki hvað vakir fyrir þeim stjórnmálamönnum sem vilja breyta þessu með þessum hætti og leggja fram þetta frumvarp og styðja það heilshugar.

Maður hefði í gegnum tíðina trúað þessu upp á Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. En maður á vont með að trúa að Samfylkingin standi að þessu og Vinstri grænir. Vinstri grænir sem þykjast vera lýðræðissinnaðir mannréttindasinnar eru harðastir í að fylgja frumvarpinu úr hlaði. Hv. þm. Atli Gíslason, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, er sá harðasti í að fylgja þessu eftir ásamt fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni sem er nú í sjávarútvegsnefndinni eða hefur setið fundi þar upp á síðkastið. Þannig að hér siglum við eiginlega strönduðu skipi enn þá meira í strand og í stað þess að reyna að bakka út úr strandinu er allt sett í botn áfram. Það hefur reyndar stundum heppnast þegar menn stranda í sandi en ekki þegar klöpp eða grjót er í fjörunni.

Eins og ég sagði og hef sagt hér er með ólíkindum hvað menn ætla að ganga langt í þessum málum. Við verðum að hætta að auka á vandræðin og gera vont verra. Við verðum að snúa við og reyna að byrja á því, eins og við í Frjálslynda flokknum vildum, að taka inn í þessa umræðu um frístundaveiðar frjálsar handfæraveiðar og reyna að snúa ofan af vitleysunni en ekki bæta við hana.

Það eru raunverulega engin rök fyrir þessu frumvarpi önnur en þau að þjónka sægreifunum. Þjónka þeim sem eiga veiðiheimildirnar og fengu þær gefins í upphafi og geta í dag leigt þær, selt eða veðsett.

Auðvitað væri þörf á því að fara hér yfir hversu illa íslenskur sjávarútvegur er staddur og fara yfir það hverslags barbabrellur eru í gangi í dag í íslenskum sjávarútvegi, sem er hreint hörmulegt að horfa upp á.