136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[01:16]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Það er eitt sem ég get tekið undir með hv. þm. Grétari Mar Jónssyni, það er ekki nokkur einasti bragur á því að við skulum vera að ræða þetta frumvarp hér um miðja nótt. Það er náttúrlega algjörlega fráleitt að þannig skuli vera staðið að málum hér í Alþingi að mál sem varðar svona mikla hagsmuni sé rætt við þessar aðstæður.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson átaldi starfshópinn sem ég stýrði fyrir að hafa ekki leitað álits allra þeirra aðila sem stunda sjávartengda ferðaþjónustu. Ég bendi á að í starfshópnum var fulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar sem auðvitað hafði það hlutverk og gerði það algjörlega með sóma, sem lagði fram gögn um það hverjir — eftir því sem hægt var miðað við að ekki hafa verið settar skýrar reglur í kringum þessa atvinnugrein lagði fram í starfshópnum upplýsingar um það hvernig málum væri háttað hjá bæði sjóstangaveiðifyrirtækjum og hvalaskoðunarfyrirtækjum. Einnig áttum við viðtöl við aðila sem reka slík fyrirtæki. Ég frábið mér það að við höfum ekki staðið vel að verki hvað þetta varðar en það var alveg fullkomlega ljóst að þegar við skiluðum skýrslunni okkar gerðum við ráð fyrir því að upp úr slíkri vinnu yrði samið frumvarp (Forseti hringir.) sem yrði síðan lagt fram með eðlilegum hætti og leitað umsagna (Forseti hringir.) hjá þeim hagsmunaaðilum sem málið varðar. Það eru eðlileg vinnubrögð við lagasetningu.