136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[01:20]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv forseti. Starfshópurinn sem var skipaður af sjávarútvegsráðherra — ef hv. þingmaður vildi aðeins hlýða á — var skipaður í framhaldi af því að við höfðum fjallað um mál í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á síðasta þingi og þegar það mál var lagt fram var ljóst að það þyrfti víðtækari skoðun á hvernig hægt væri að standa að því að setja lög og reglur í kringum frístundaveiðarnar. Það var okkar verkefni að skoða þetta umhverfi og koma með tillögur.

Hvert áttum við að skila þessum tillögum? Ekki til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, þetta var hópur sem starfaði fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og skilaði áliti sínu í skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það var síðan ákvörðun þeirra stjórnarflokka sem nú fara þar með húsráð að í ráðuneytinu var samið frumvarp. Það var svo sannarlega byggt á vinnu starfshópsins sem ég stýrði en það var ósk núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd mundi flytja þetta mál. Ég hélt satt að segja, hæstv. forseti, að hv. þm. Grétari Mar Jónssyni væri fullkomlega ljóst hvernig þessu væri háttað því að hann er flutningsmaður að frumvarpinu. Þess vegna er öll þessi ræða hans hér og málflutningur í kvöld — eða í nótt því að það er nú nokkuð liðið á nóttina — (Forseti hringir.) fullkomlega óskiljanlegur, (Forseti hringir.) fullkomlega óskiljanlegt hvernig hv. þingmaður hefur flutt mál sitt hér.