Tollalög og gjaldeyrismál

Þriðjudaginn 31. mars 2009, kl. 18:35:37 (6180)

136. löggjafarþing — 119. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[18:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á tollalögum og lögum um gjaldeyrismál. Eins og þingmönnum er í fersku minni var samþykkt á Alþingi 28. nóvember sl., í góðri samvinnu allra sem hér sátu með hliðsjón af mikilvægi málsins, breyting á lögum um gjaldeyrismál sem ætlað var að sporna gegn hættu á verulegri gengislækkun íslensku krónunnar. Með lögunum var Seðlabanka Íslands veitt tímabundin heimild til að setja reglur sem takmarka fjármagnsflutninga milli landa en tilgangur þeirra er að takmarka útflæði gjaldeyris, m.a. með reglum um skilaskyldu gjaldeyris.

Nú er svo komið að gengi krónunnar hefur lækkað talsvert síðustu vikur og eru allsterkar vísbendingar um að það markmið að byggja upp gjaldeyrisforða með skilaskyldu gjaldeyris gangi ekki eftir þótt vissulega komi fleira til eins og gjalddagar á lánum og umtalsverðar vaxtagreiðslur úr landi. Helsta ástæðan virðist vera sú að útflutningsaðilar eru ekki skuldbundnir til að selja afurðir sínar í erlendum gjaldmiðli. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands og tollyfirvöldum eru vísbendingar um að verðmæti útfluttra vara sem greitt er fyrir með íslenskum krónum á tímabilinu janúar til mars á þessu ári sé nærri 2 milljörðum meira en á sama tíma árið 2008, þar af í marsmánuði einum hefur útflutningur í íslenskum krónum — um 20. mars sl. nálgast hann 1.400 milljónir í stað 160–170 milljóna í sama mánuði fyrir ári.

Það er rétt að taka fram að stóru útflutningsaðilarnir, t.d. stóru sjávarútvegsfyrirtækin, eru ekki þátttakendur í þessum krónuútflutningi og hafa spilað samkvæmt þeim leikreglum sem ætlunin er að fylgt sé á grundvelli laga um skilaskyldu gjaldeyris.

Það er einnig mjög mikilvægt að leggja á það áherslu að þetta ástand er óviðunandi, ekki bara vegna þeirra afleiðinga sem það hefur og áhrifa á gengi krónunnar, heldur líka vegna þess að það bjagar samkeppnisstöðu og getur orðið dýrkeypt vegna undirboða og fleiri vandræða á markaði.

Innflutningur til landsins hefur dregist mikið saman sem ætti við eðlilegar aðstæður að gefa grundvöll fyrir styrkingu krónunnar. Lækkun gengis krónunnar gefur því vísbendingar um að einhverjir útflytjendur fái greitt fyrir vörur sínar innan lands með íslenskum krónum en að kaupandinn greiði, annaðhvort beint eða í gegnum millilið, í erlendum gjaldmiðli til aðila utan landsteinanna. Þannig er dregið mjög úr áhrifamætti gjaldeyrisreglna Seðlabankans.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum sem ætlað er að koma í veg fyrir að dregið sé úr áhrifamætti laga og reglna um gjaldeyrismál sem að öllu öðru leyti eru óbreyttar.

Breytingarnar fela í sér að nýju bráðabirgðaákvæði verði bætt við lög um gjaldeyrismál sem kveði á um að útflutningsviðskipti vöru og þjónustu skuli fara fram í erlendum gjaldmiðli. Samhliða er lögð til breyting á tollalögum sem felur í sér að á útflutningsskýrslu skuli viðskiptaverð vöru skráð í erlendum gjaldmiðli. Lagt er til að breytingarnar verði tímabundnar til 30. nóvember 2010 sem er sama tímabil og áætlun Íslands um efnahagsstöðugleika vegna lánsumsóknar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tekur til.

Það er rétt að fram komi að í hádeginu kynnti ég málið fyrir forustumönnum útvegsmanna og fiskvinnslunnar og sömuleiðis Samtaka atvinnulífsins og eru menn þar sammála um að óhjákvæmilegt sé að bregðast við aðstæðunum þó að þeir aðilar séu ekki endilega eftir atvikum sáttir við þær takmarkanir sem settar voru á í haust.

Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum, virðulegi forseti, að mikilvægt er að gera breytingar sem þessar hratt og fumlaust og þannig að hinar nýju reglur taki tafarlaust gildi og er gildistökuákvæði frumvarpsins þannig úr garði gert. Ég er því þakklátur fyrir ef samstarf getur tekist um að haga þannig afgreiðslu málsins og vænti þess að allir hv. alþingismenn, burt séð frá deilum um aðra og óskylda hluti, skilji þær aðstæður sem hér eru uppi. Lokað var fyrir móttöku tollskýrslna á rafrænu formi fyrir kl. fjögur í dag og vandséð að gjaldeyrismarkaðir yrðu opnaðir án vandræða í fyrramálið nema þessar breytingar verði um garð gengnar. Ég vænti þess að hv. þingnefnd og þingheimur allur sýni góðan skilning á þessum aðstæðum og að þessar aðgerðir eru brýnar og óumflýjanlegar og mjög hliðstæðar því sem menn töldu óumflýjanlegt að gera á liðnu hausti eða snemma vetrar og þingmenn sýndu þá skilning.

Að þessu mæltu, virðulegi forseti, legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.