Tollalög og gjaldeyrismál

Þriðjudaginn 31. mars 2009, kl. 22:48:40 (6186)


136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[22:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á tollalögum og lögum um gjaldeyrismál. Mér finnst eiginlega frekar sorglegt að standa hérna og ræða þessi mál. Ég hélt í einlægni fyrir nokkrum mánuðum að ég mundi aldrei lifa þá tíma að við værum að ræða höft á gjaldeyri og að frjáls viðskipti væru ekki nokkuð sem við gætum tekið (Gripið fram í.) sem sjálfsagðan hlut.

Gjaldeyrishöftin frá því í haust voru ömurleg en enn ömurlegra finnst mér þó að standa hér og styrkja þau í sessi. Það hefur drepið niður hjá mér þá von að þetta verði, eins og til stóð, einungis tímabundin ráðstöfun þar sem markmiðið var að verja krónuna. Eins og sést á þessu hefur það ekki dugað til.

Markmiðið með breytingunni er að stoppa í gat sem myndast hefur. Það er í rauninni verið að setja fötuna undir lekann í staðinn fyrir að gera við þakið sjálft sem er lekt. Eins og fram kom hjá formanni Sjálfstæðisflokksins áðan, við upphaf umræðunnar, er þetta augljóst dæmi um það að núverandi ríkisstjórn, þessari minnihlutastjórn, hefur mistekist að leysa þann undirliggjandi vanda sem við er að glíma, þ.e. að létta þrýstingnum af íslensku krónunni sem gjaldeyrishöftin í haust voru sett á til að tryggja.

Þetta vandamál er klárlega til staðar og það kom fram á fundi efnahags- og skattanefndar í kvöld. Þeir gestir sem komu tóku undir að þetta er vandamál sem íslensk fyrirtæki glíma við núna. Það er afar bagalegt ef þetta er farið að skaða hagsmuni fyrirtækja, sérstaklega íslenskra fiskútflytjenda. Það var talað sérstaklega mikið um fiskútflytjendur og ekki var svo sem komið með nein dæmi úr öðrum atvinnugreinum. Það er mjög bagalegt ef þetta er farið að skaða hagsmuni þeirra, lækka afurðaverð á erlendum mörkuðum og skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja í þessum greinum.

Ég væri að sjálfsögðu til í að taka þátt í að lagfæra slíkt ástand og mundi ekki skorast undan því en ég hef miklar efasemdir um að sú lagabreyting sem við erum að ræða hér dugi til. Ég óttast að við séum einungis að færast lengra inn í það tímabil hafta og stöðnunar sem nú blasir við án nokkurrar áætlunar og án þess að nokkuð liggi fyrir sem styrki okkur í þeirri trú að við komumst einhvern tímann út úr þessu. Það er ekki fengist við undirliggjandi vanda.

Eins og hv. þm. Pétur Blöndal nefndi á undan mér var fulltrúi Alþýðusambandsins kannski harðorðastur um þessi mál og talaði um að það væri engin landsýn í rauninni málinu, við græfum okkur dýpra og dýpra í fenið ef við féllumst á að styrkja þessi höft. Þetta leysir ekki málið og það var mikið rætt í nefndinni hvernig ætti að hafa eftirlit með þessu, hvort það væri einhver leið til að tryggja að þessi lagabreyting mundi breyta einhverju um það ástand sem nú hefur skapast. Breytingartillaga var lögð fram sem meiri hluti nefndarinnar getur um í nefndaráliti sínu og hún kveður helst á um að skikka útflytjendur til að skila skýrslum inn í Seðlabanka eða eitthvert til að hægt sé að tékka á þessu en ég leyfi mér að hafa efasemdir um að það verði nokkur á hinum endanum til að fara yfir skýrslurnar. Þetta verður allt saman frekar flókið.

Það sem við ættum að vera að ræða hér er hvernig við förum út úr þessu í staðinn fyrir að fara hænuskref fyrir hænuskref eins og framkvæmdastjóri og formaður Alþýðusambandsins nefndi, hænuskref fyrir hænuskref inn á leið haftastefnu. Hvað leggur ríkisstjórnin til að við gerum, þótt ekki sé nema hænuskref fyrir hænuskref, til að komast út úr þessari haftastefnu? Hvernig getum við lagt af þessi gjaldeyrishöft? Hvernig á að leysa undirliggjandi vanda sem, eins og hér hefur komið fram og kom vel fram í nefndinni, felst í krónubréfunum? Hvernig á að komast út úr þeim vanda?

Ég tek undir með þeim félögum mínum sem hér hafa talað að ég get ekki stutt þetta mál vegna þess hvernig það er fram borið og eins og við höfum talað um ágallana sem eru á málinu. Ég held að það sé rétt að ríkisstjórnin, minnihlutastjórnin, beri ábyrgð á þessu sjálf vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að hún beri mikla ábyrgð á því að ekki sé búið að koma málum þannig fyrir að hægt sé að leysa þau á farsælli veg. Þess vegna mun ég sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.