Tollalög og gjaldeyrismál

Þriðjudaginn 31. mars 2009, kl. 23:21:51 (6193)


136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[23:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að þessi löggjöf er mikið neyðarbrauð. Hún stafar auðvitað af þeirri erfiðu stöðu sem gjaldmiðillinn er í og nú er það þannig að við höfum reynt að lifa við þennan gjaldmiðil síðustu mánuði, með þessum miklu höftum og það er orðið ljóst að sú staða er erfið og gríðarlega flókið að láta gjaldmiðilinn virka, jafnvel með þessum miklu höftum, og auðvitað er það þannig í frjálsum viðskiptum að menn leita að glufum. Þess vegna eru höft afar óæskileg fyrirbæri.

Það sem vekur hins vegar athygli í öllu þessu er að til þess að komast út úr þessum haftabúskap þurfa menn að hafa framtíðarsýn og sýn á lausnir (Gripið fram í.) og þar finnst mér hv. þingmaður skauta nokkuð létt yfir sviðið og ekki koma með skýra sýn um hvernig eigi í reynd að vera hægt að losna við þessi höft. (Gripið fram í: Evrópusambandið.) Hvaða peningamálastefna á að geta lyft okkur upp úr þessari stöðu? (PHB: Evrópusambandið.) Það er sú spurning — Evrópusambandið stingur hv. þm. Pétur H. Blöndal upp á, það er kannski umhugsunarefni. (Gripið fram í.) Gott að hann er nú farinn að sjá ljósið í því efni. (Gripið fram í.) En ég hlýt að spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson hvaða lausnir hann sér. Hvaða peningamálastefna er það sem á að gera okkur kleift að komast út úr þeim haftabúskap sem Sjálfstæðisflokkurinn leiddi yfir okkur?