Bætur til Breiðavíkurdrengjanna

Fimmtudaginn 02. apríl 2009, kl. 11:22:02 (6360)


136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

bætur til Breiðavíkurdrengjanna.

[11:22]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Öll þekkjum við málefni Breiðavíkurdrengjanna sem hafa verið í deiglunni síðustu tvö árin, um að borga þeim skaðabætur, en það hefur látið á sér standa að klára þau mál. Ég spyr þess vegna hæstv. forsætisráðherra hvað því líði, hvar málið sé statt, hvers sé að vænta, hvort við megum búast við því að fyrir kosningar verði búið að ganga frá samningum og bótum við þessa ógæfusömu drengi sem lentu í þeim hörmungum að vera sendir þangað, rifnir frá fjölskyldum sínum og sendir í betrunarvist, eða hvað á að kalla það, á Breiðavík.

Breiðavíkurmálið er stór, svartur blettur á íslensku þjóðinni og við eigum að sjá sóma okkar í því að laga það og borga þessum drengjum bætur. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvað því máli líði.