Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 02. apríl 2009, kl. 12:26:16 (6410)


136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:26]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er einkennilegt að sitja undir þeirri umræðu sem hér á sér stað. Það er með ólíkindum að verða vitni að því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, framsögumaður fyrir meirihlutaáliti, sitji hér úti í sal og klappi fyrir orðum einstakra þingmanna, það ber kannski vott um það hvers lags skrípaleikur uppsetning á þessu máli er. (Gripið fram í.) Jafnframt er því lýst yfir af hennar hálfu að sjálfstæðismenn þoli ekki að ræða þetta mál í dagsbirtu. Ég veit ekki betur — hv. þingmaður getur þá fylgst með klukkunni hér — en að það sé bjart úti. Hér er bjartur dagur og sjálfstæðismenn kinoka sér ekkert við að ræða þetta mál. Langur vegur frá.

Málið er þeim mun mikilvægara að við höfum unnið eið að stjórnarskránni og viljum umgangast það grundvallarplagg af virðingu. Ég undrast það í ljósi þeirra orða sem ég hef áður heyrt frá þingflokksformanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, að hann skuli ekki hafa málið betur í heiðri en raun ber vitni hér í þessum umræðum.