Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 02. apríl 2009, kl. 21:07:41 (6542)


136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:07]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf ekkert að koma á óvart þó að hv. þingmenn í meiri hlutanum séu uppteknir af Sjálfstæðisflokknum vegna þess að meiri hlutinn hefur mikinn áhuga á því að þingmenn gangi saman út í vorið hönd í hönd samstiga í þessu máli. Við erum að reyna að skilja afstöðu Sjálfstæðisflokksins og kanna hvort eða hvernig hægt sé að koma til móts við hann vegna þess að við höfum átt mjög erfitt með að skilja efnislega afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Við skiljum formlegu umræðuna sem hefur verið algjörlega ráðandi í málflutningi þeirra en ég hef verið að reyna að leita eftir efnislegri afstöðu til þess að reyna að leita leiða til að ná saman við minni hlutann.

Ég held að sjálfstæðismenn geri meira úr því en efni standa til ef þeir telja að þær klassísku hugmyndir sem hér eru, t.d. hugmyndir jafnaðarmanna og fleiri um þjóðareign á auðlindum og þjóðaratkvæðagreiðslur, séu settar fram Sjálfstæðisflokknum til höfuðs. (Forseti hringir.) Það tel ég alveg fráleitt.