Stjórnarskipunarlög

Föstudaginn 03. apríl 2009, kl. 12:41:06 (6682)


136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst slæmt ef ég veld hv. þingmanni vonbrigðum. Hún vitnar til þess að ég yrði þá fyrsti forsætisráðherrann, og þá kvenforsætisráðherrann, sem mundi knýja fram stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn. (Gripið fram í.) En hún hefði líka getað tekið aðrar hliðar á þessu máli. Það hefur kannski þurft konu í stól forsætisráðherra til þess að ná fram þessum breytingum á stjórnarskránni sem hefur verið kallað eftir í langan tíma, í mörg ár. Það hefur verið fjallað um í mörgum karlanefndum án þess að ná samstöðu í málinu eins og varðandi auðlindir í þjóðareign sem er mál sem mikill meiri hluti þjóðarinnar bíður eftir að nái fram að ganga. Ég kalla það líka mjög gott þegar kona er í stól forsætisráðherra að ná fram þeirri breytingu og lýðræðisumbótum sem fólk hefur lengi kallað eftir, þ.e. að ná fram rétti til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta eru allt mjög miklar lýðræðisumbætur og fari mál svo að þessi mál nái fram að ganga undir mínu forsæti yrði ég afar ánægð með það.

Hv. þingmaður verður líka að muna að staðan er sú að stjórnmálaflokkarnir hafa ekki verið færir um að afgreiða með eðlilegum hætti ýmsar breytingar á stjórnarskránni sem nauðsynlegar eru eins og réttlátar breytingar á kjördæmaskipan í landinu. Hv. þingmaður þekkir það ábyggilega að allar þær breytingar hafa verið með þeim hætti að þingmenn máta sig inn í það hvort þeir eru inni eða úti eftir því hvaða tillögur eru uppi á borðinu. Slíkt mál þarf örugglega að fara inn í stjórnlagaþing, svo að dæmi sé tekið. Jafnframt þyrfti að fara betur yfir aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Ég held að þrátt fyrir margar tilraunir hafi ekki tekist vel hjá þingmönnum að leysa það mál þannig að stjórnlagaþing er ákaflega mikilvægt.