Fundur í umhverfisnefnd -- umhverfismál

Þriðjudaginn 07. apríl 2009, kl. 10:41:30 (7116)


136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd – umhverfismál.

[10:41]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég hygg að málsmeðferð í þessu stóra umhverfisverndarmáli hafi verið í góðu lagi. Formaður nefndarinnar veiktist í einn eða tvo daga. Ég bauðst til að halda fundinn. Hann taldi sig geta komið því við, eins og hv. þm. Árni M. Mathiesen veit, og ég sinnti honum í hvívetna varðandi beiðni hans.

Ég tel líka að þessi tillaga sé þarflaus. Hún er svipað þarflaus eins og að vera með þingsályktunartillögu á Alþingi um að Íslendingar skuldbindi sig til að fara að umferðarlögum. Samningsmarkmið Íslands er í samræmi við þingsályktunartillöguna. Ef menn hafa hins vegar í hyggju að kalla fram meiri losun göngum við gegn alþjóðlegum skuldbindingum okkar og þá göngum við gegn hagsmunum alheimsins. Við verðum að draga úr losun. Við berum ábyrgð innan lands og einnig hnattræna ábyrgð, við verðum að draga úr losun. Markmiðin eru 20% á næsta samningstímabili. Við verðum líka að leggja áherslu á að finna leiðir til að binda losunina og Andrés Arnalds, fremsti sérfræðingur okkar í þessum málum, hefur lagt fram gagnmerkar tillögur þess efnis. Hann er einn fremsti sérfræðingur heimsins í bindingu gróðurhúsalofttegunda við jarðveg.

Við verðum líka að huga vel að orkusparnaði í sjávarútvegi sem væri verulegt borð fyrir báru í samgöngum í heild sinni og við verðum líka að huga að því að nota okkar grænu orku til vistvænnar starfsemi. Ég nefni gagnmerkar tillögur Framsóknarflokksins á fyrri þingum um vetnisframleiðslu á Íslandi. Við megum ekki binda notkun okkar grænu orku við mengandi stóriðju sem stendur ekki undir sér jafnvel þó að maður hugsi eins og kapítalisti einn dag og sleppi öllum umhverfisáhrifum. Það er enginn gróði í því, hvorki fyrir Ísland né aðra.