Fundur í umhverfisnefnd -- umhverfismál

Þriðjudaginn 07. apríl 2009, kl. 10:50:10 (7120)


136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd -- umhverfismál.

[10:50]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Mér finnst nú taka í hnjúkana þegar menn hafa þau orð um þingmál sem meiri hluti alþingismanna flytur að það sé vitleysisþingsályktunartillaga og mæla því bót að þingmálið eigi ekki greiða leið í gegnum starfsferil þingsins til að fá umfjöllun eins og vera ber. Af því að við búum í lýðræðisríki hélt ég að menn hefðu það sem grundvallaratriði að virða vilja meiri hlutans. Jafnvel þótt menn séu ósammála meiri hlutanum þá á meiri hlutinn að fá að ráða. Það mætti hv. þm. Mörður Árnason hafa í huga. Það mætti forseti Alþingis hafa í huga með hliðsjón af því þingmáli sem hér var nefnt um hvalveiðar en meiri hluti þingmanna flytur málið (Gripið fram í: Er það ekki lýðræði?) og vill fá það samþykkt en fær það ekki rætt. (Gripið fram í.)

Menn hafa haft hér að orði að vald spilli og flokkar sem sitji lengi við völd láti á sjá og menn fyllist valdhroka og það hefur réttilega verið gagnrýnt í gegnum árin. Nú þegar komin er ný ríkisstjórn skipuð flokkum sem lengi hafa verið utan valdsins hélt ég að menn ætluðu að breyta og lagfæra það sem aflaga hefði farið. En alveg ótrúlega eru menn fljótir að verða eins og þeir sem þeir gagnrýndu. Flokkur sem ekki hefur verið í ríkisstjórn nema síðan 1. febrúar er farinn að haga sér nákvæmlega eins og flokkurinn sem var í ríkisstjórn í 18 ár og hann gagnrýndi. Það eru mikil vonbrigði, virðulegi forseti, þegar þeir sem gagnrýndu fyrir nokkrum mánuðum eru nú farnir að haga sér nákvæmlega eins og þeir sem þeir gagnrýndu fyrir örfáum vikum.