Röð mála á dagskrá o.fl.

Þriðjudaginn 07. apríl 2009, kl. 11:25:12 (7145)


136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:25]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er ekki mikill kunnáttumaður um þingskapalögin og ætla ekki að fara að vegast hér á um túlkun einstakra greina í þeim. Það sem ég sé þó er að ef heldur fram sem horfir er starf Alþingis komið í ógöngur vegna þess að ósvífinn minni hluti getur truflað hvern einasta fund Alþingis með endalausum dagskrártillögum, ósvífinn minni hluti undir forustu hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur (Gripið fram í.) getur stöðvað hvern einasta fund með sífelldum dagskrártillögum og komið í veg fyrir að (Gripið fram í.) Alþingi Íslendinga, sem þjóðin kýs til tiltekinna verka, geti klárað þau verk. Það er óháð Arnbjörgu Sveinsdóttur sem þorir ekki að ræða hlutina sem hér eru á dagskrá en tönnlast á sömu setningunni sífellt og ætíð, enda hefur hún flutt sömu ræðuna fimm sinnum hér í tilteknu máli. (Gripið fram í.)

Þjóðin ætlast ekki til þess að þessum þingmanni haldist uppi að eyðileggja verk hinna 62 þingmannanna sem (JónG: … varamann …) Já, það getur Arnbjörg auðvitað gert, hún getur kallað inn varamann. (Gripið fram í.)

Forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson vekur athygli á því að Arnbjörg Sveinsdóttir geti kallað inn varamann. Það er ábending sem mér kemur ekki við. Það er alveg augljóst, forseti, (Forseti hringir.) að með þessari túlkun á þingsköpunum eru störf Alþingis í uppnámi. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér með þessu (Gripið fram í.) að setja störf Alþingis í uppnám og það er ekki tilgangur þessara laga (Gripið fram í.) sem ég held hér á. (JónG: … finna formsatriði.) Ég þakka Jóni Gunnarssyni fyrir ákafa þátttöku í þessari ræðu minni. (JónG: Það er ekkert að þakka, það var velkomið.)