Úrskurður forseta um dagskrártillögu

Þriðjudaginn 07. apríl 2009, kl. 13:54:23 (7190)


136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

úrskurður forseta um dagskrártillögu.

[13:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að hér voru greidd atkvæði um dagskrártillögu í gær. Það voru ekki greidd atkvæði um vantraust á forseta heldur voru greidd hér atkvæði í þingsal um dagskrártillögu. Við ítrekum það, við sjálfstæðismenn, að við viljum fá greiðsluaðlögunina á dagskrá núna strax. Við viljum gera þetta að lögum helst í dag.

Hverjir bera ábyrgð á því að við getum ekki klárað þetta mál núna í dag? Það eru þingmenn stjórnarmeirihlutans, þ.e. Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknar. Þeir eru að koma í veg fyrir að við getum komið núna í dag til móts við þarfir heimilanna og fyrirtækjanna. Af hverju er verið að koma í veg fyrir það? Vilja menn ekki ræða hér mikilvægu málin?

Ég ítreka það, herra forseti, að ég tel mikilvægt að við greiðum atkvæði um dagskrártillöguna. Hún er mikilvæg til þess að við getum mjakað hér áfram mikilvægum málum í þinginu.