Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði

Miðvikudaginn 08. apríl 2009, kl. 14:44:19 (7297)


136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:44]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir einu og hálfu ári gerði venjulegt fólk, fjölskyldufólk, sínar áætlanir. Keypti sér jafnvel húsnæði, settist niður með fulltrúa í bankanum og gerði áætlun til framtíðar um hver greiðslubyrði lánanna væri og hvert tekjustreymi heimilisins yrði.

Núna, einu og hálfu ári síðar, er staðan sú að lánin hafa hækkað um 20% á meðan laun viðkomandi heimilis hafa jafnvel lækkað um 20%. Það er ljóst að þúsundir heimila eru í dag og munu verða í mjög erfiðri stöðu. Við framsóknarmenn viljum einfaldlega koma í veg fyrir að það fólk sem gerði sínar áætlanir fyrir einu og hálfu til tveimur árum, með mjög heiðarlegum hætti, þurfi ekki að leita í úrræði eins og við erum að mæla fyrir hér, þ.e. að leita til dómstóla, fá sér sérstakan tilsjónarmann og ganga í gegnum allt þetta.

Því ég vil segja að fyrir marga getur þetta ferli verið mjög erfitt og jafnvel niðurlægjandi fyrir sumt fólk sem taldi að það væri með heiðarlegum hætti fyrir einu og hálfu til tveimur árum að gera raunhæfar áætlanir og lendir síðan í þessu mikla efnahagshruni. Það er þess vegna sem við höfum talað fyrir niðurfærsluleið sem mun fækka verulega þeim sem mundu þurfa á úrræði sem þessu að halda. Um leið væri úrræði sem þetta orðið miklu skilvirkara en ella, ef þúsundir eða jafnvel tugþúsundir íslenskra heimila, ef þetta færi mjög illa, þyrftu að leita eftir úrræði sem þessu.

Við framsóknarmenn erum tilbúnir að skoða aðrar hugmyndir, m.a. um hvort það eigi að koma frekar til móts við greiðsluvanda heimilanna á næstu tveimur til þremur árum. Ég vil skoða þessar hugmyndir með opnum huga og ég ætla ekki að útiloka það þó að hugmyndir komi frá öðrum flokkum, Vinstri grænum eða sjálfstæðismönnum að þær séu ómögulegar fyrir fram eins og henti okkur framsóknarmenn þegar við lögðum fram þessa niðurfærsluleið og margir úr öðrum herbúðum útilokuðu (Forseti hringir.) hugmyndir okkar fyrir fram án þess (Forseti hringir.) að hafa kynnt sér þær.