Tekjuskattur

Miðvikudaginn 08. apríl 2009, kl. 15:52:40 (7311)


136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

tekjuskattur.

410. mál
[15:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er náttúrlega útúrsnúningur hjá hv. þingmanni. Ef hann skoðar þessa töflu, og ég hvet þá sem fylgjast með þessari umræðu til að skoða fylgiskjalið með frumvarpinu, kemur glöggt í ljós að þeir sem lægstar hafa tekjurnar fá auðvitað langmest í gegnum þetta kerfi, hjón fá hérna yfir 400.000 kr. Síðan fer þetta hlutfallslega lækkandi eftir því sem tekjurnar hækka.

Þetta veit hv. þingmaður þannig að þegar launatekjurnar eru komnar í þær upphæðir sem hv. þingmaður nefndi eru vaxtabæturnar orðnar eitthvað um 180.000 kr. Það munar aldeilis þarna á milli. Þetta er tekjutengt, virðulegi forseti.

Hv. þingmaður talar eins og við séum að sólunda fé í gegnum þetta kerfi með því að endurgreiða fólki og heimilunum í landinu þann gríðarlega vaxtakostnað sem þau bera vegna mistaka fyrri ríkisstjórnar sem hv. þingmaður studdi, mistaka í því að menn létu hjá líða að ræða það að við værum á leiðinni inn í bullandi gjaldmiðilskreppu sem er búin að valda þessum óskunda hjá heimilunum í landinu sem við erum núna að reyna að taka á.

Innan raða Sjálfstæðisflokksins sem hv. þingmaður er hluti af eru menn að tala um að skera 20% af öllum lánum. Fulltrúar, frambjóðendur og talsmenn Sjálfstæðisflokksins tala fyrir 20% niðurfellingu allra lána. Hvaða augum lítur hv. þingmaður þær tillögur? Það sem við erum með hér eru tillögur sem fela það í sér að færa endurgreiðslur af þessum gríðarlega kostnaði til þeirra heimila sem raunverulega þurfa á að halda, þeirra heimila sem eru skuldsettust og þeirra heimila sem eru í lág- og millitekjuhópum.