Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 14. apríl 2009, kl. 23:37:29 (7425)


136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:37]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að spyrja hverju sætir að þetta mál er tekið á dagskrá. Ég er næstur á mælendaskrá, mér vitanlega er enginn annar á mælendaskrá, og hvernig stendur á því að umræðu um þetta frumvarp er ekki lokið? Ég hefði talið að það væri eðlilegur hlutur að hafa þann hátt á.

Þannig vildi til að um fjögurleytið í dag var ég næstur á mælendaskrá til þess að fjalla um breytingu á lögum um stjórnarskipunarlög og kom í þingsal til þess og var viðbúinn því að flytja þingræðu mína um það mál. Þá var þingfundi frestað og síðan frestað aftur og svo var þetta frumvarp um breytingu á ýmsum lögum varðandi fjármálamarkaðinn tekið í staðinn. Ég hlýt að spyrja: Hverju veldur svona ruglandi í dagskrá þingsins? Hvernig geta menn búist við að vönduð lagastarfsemi komi út úr því þegar forseti hagar málum á þennan hátt og þingmaður þarf að sæta því að þegar hann er einn eftir á mælendaskrá til að fjalla um frumvarp það sem hér um ræðir í síðari ræðu skuli málið skyndilega tekið af dagskrá, (Forseti hringir.) hann hefur beðið eftir því að komast að til að ræða um stjórnarskipunarlög frá klukkan fjögur í dag? (Forseti hringir.) Mér finnst þetta bara fyrir neðan allar hellur. Ég fer fram á það, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að við ljúkum umræðunni um breytingu á ýmsum lögum varðandi fjármálamarkaðinn.