136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:23]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég var ekki nógu fljót áðan að biðja um orðið um fundarstjórn forseta en það var full ástæða til að ræða einmitt stöðuna eins og hún var þá, þau sjónarmið sem þar höfðu komið fram. Ég vil t.d. benda á sjónarmið hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um að það sé orðið fullkomlega nauðsynlegt að fá fram sjónarmið hæstv. forseta í þessu stjórnarskrármáli. Hver er virðing Alþingis varðandi umfjöllun um þetta mál? Komin er fram tillaga frá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur í fjölmiðlum í dag um að tekin verði ein grein út úr frumvarpinu og hún verður þá væntanlega ekki rædd frekar.

Hvað stöndum við þá uppi með, hæstv. forseti? Er það ekki spurning um virðingu Alþingis, um málsmeðferð, (Forseti hringir.) að hæstv. forseti beiti sér nú fyrir því að umræðu verði frestað (Forseti hringir.) og málið fari til sérnefndar þannig að hægt sé að fjalla (Forseti hringir.) um málið eins og það er statt núna og fá niðurstöðu um hver staðan er?