136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:09]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það er eðlilegt að mikilvæg og efnisrík umræða fari fram þegar stjórnarskráin er annars vegar. Við sjálfstæðismenn höfum um árabil tekið þátt í umræðum um stjórnarskrána og lagt fram breytingartillögur og ýmsar hugmyndir um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni.

Stjórnarskráin er að sumu leyti gengin sér til húðar hvað varðar ýmis efnisatriði og ýmsar spurningar vakna við lestur hennar.

Í 1. gr. stjórnarskrárinnar segir að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. Menn hafa t.d. deilt um það í mörg ár hvað felist í hugtakinu þingbundin stjórn.

Hér erum við ekki að ræða það atriði eða mörg önnur sem ættu að vera til umfjöllunar þegar verið er að ræða breytingar á stjórnarskránni heldur ræðum við hér um fjórar tillögur frá fjórum stjórnmálaflokkum sem eru ólíkar innbyrðis og ekki þess eðlis að hægt sé að tala um að vandað sé til lagasetningarinnar.

Það er miður að hv. þm. Atli Gíslason, sem hefur verið helsti siðapostuli þingsins varðandi það hvernig standa eigi að lagasetningu — hefur gjarnan veifað hér Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa — skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu og fella dóma yfir því verklagi sem viðhaft er við þessa stjórnarskrárbreytingu. Ég leyfi mér að fullyrða að aldrei í þingsögunni hafi menn kastað jafnhressilega til höndunum við breytingar á stjórnarskrá.

Ég tók saman í möppu þær umsagnir sem þinginu hafa borist vegna frumvarpsins. Segja má að þar komi fram mjög skýr sjónarmið gegn frumvarpinu. Ef draga ætti saman efnisatriði þeirra umsagna sem borist hafa vegna þessa máls má segja að í þeim felist falleinkunn yfir frumvarpinu sem hér er til umræðu. Eftir því sem á umræðuna líður, eftir því sem hún verður lengri, þeim mun furðulegra verður þetta mál. Þeim mun furðulegra er að horfa upp á það hvernig flutningsmenn frumvarpsins halda á því.

Það hefur verið rakið hér í umræðunni að þrjár útfærslur af stjórnlagaþingi og stjórnlagaþingshugmyndum þeim sem Framsóknarflokkurinn lagði upp með, þegar hann kynnti þá hugmynd sína, hafi komið fram á þessu þingi. Nú ber svo við að fjórða útgáfan birtist okkur þingmönnum í fjölmiðlum, sú að formaður þingflokks Framsóknarflokksins hefur tilkynnt að ekkert verði úr því að stofnað verði til stjórnlagaþings í þetta skipti. Stjórnlagaþing verði að bíða betri tíma. Engu að síður ræðum við hér um frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem eru fimm greinar og ein þeirra greina, 4. gr., varðar stjórnlagaþing.

Hæstv. forseti þingsins hefur ekki upplýst okkur þingmenn um það hvort væntanleg sé breytingartillaga þar sem 4. gr. frumvarpsins verður felld brott eða gerðar á henni breytingar. Satt best að segja er þetta allt saman með miklum ólíkindum. Í fjölmiðlum kemur fram skýr yfirlýsing frá þingflokksformanni Framsóknarflokksins um það að fallið hafi verið frá hugmyndum um stjórnlagaþing en samt sem áður er hið háa Alþingi að fjalla um mál sem inniheldur þá sömu tillögu og búið er að tilkynna að hafi verið felld út úr frumvarpinu. Ég hygg að það sé algert einsdæmi í siðuðum lýðræðisríkjum og löndum sem við kjósum að bera okkur saman við að þannig sé haldið á málum þegar stjórnarskráin er annars vegar.

Ég fæ ekki séð að ýmsir stuðningsmenn þessa máls, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, formaður sérnefndar um stjórnarskrármál, sjái sérstaklega eftir stjórnlagaþinginu. Ég fæ ekki séð að í huga hæstv. heilbrigðisráðherra, Ögmundar Jónassonar, fyrrum þingflokksformanns Vinstri grænna, sé mikil eftirsjá að tillöguflutningi um stjórnlagaþing. Nei. Það hefur skinið í gegn í umræðum og sjónarmiðum fulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingarinnar að þeir hafa ekki haft nokkra sannfæringu fyrir því að koma eigi á stjórnlagaþingi. Það er ótrúlegt. Ég leyfi mér að fullyrða að það er ótrúlegt að hæstv. forseti Alþingis — og þá á ég ekki við þann sem situr í forsetastóli núna, hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, heldur hæstv. forseta þingsins, Guðbjart Hannesson — skuli ekki hafa sagt eitt aukatekið orð um þetta mál, ekki síst í ljósi þess að tillöguflutningur um stjórnlagaþing gengur út á það að stofnað verði annað þing við hliðina á því sem fyrir er. Það er með ólíkindum að forseti Alþingis skuli ekki hafa á því skoðun að hv. þingmenn hér á hinu háa Alþingi skuli leyfa sér slíkan tillöguflutning án þess að fram komi andmæli frá forseta þingsins sem á að standa vörð um þingið og gæta virðingar þess.

Herra forseti. Ég hugðist ræða um ákvæði 3. gr. frumvarpsins, þjóðaratkvæðagreiðslurnar. Þar er lagt til að Alþingi skuli láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin lög eða málefni sem varða almannahag ef 15 af hundraði kjósenda krefjast þess. Þar segir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar sé bindandi þegar hún fjallar um gildi tiltekinna laga og meiri hluti gildra atkvæða er fylgjandi tillögu sem borin er upp þó minnst 25 af hundraði allra kjósenda á kjörskrá. Þetta þýðir í rauninni að samkvæmt meginreglu 3. gr. frumvarpsins geti 25% þjóðarinnar breytt stjórnarskrá eða tekið ákvarðanir fyrir þrjá fjórðu þjóðarinnar.

Það er umhugsunaratriði hvort Alþingi og hv. þingmenn telji að rétt sé að fara þá leið. Ég hef sjálfur sagt að það sé út af fyrir sig skynsamlegt að setja lög, vönduð lög, um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég skil vel þær kröfur sem uppi eru í samfélaginu um að eðlilegt sé að þjóðin fái að segja skoðun sína á ýmsum málum. En ég hefði talið að menn hefðu átt að leggja töluverða vinnu í það að velta því fyrir sér hvort ástæða sé til þess að gera mismunandi kröfur þegar mismunandi mál eru til umfjöllunar. Ég hefði t.d. talið að hærra hlutfall þjóðarinnar þyrfti í þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að samþykkja mjög veigamikil málefni sem varða þjóðina eins og framsal fullveldis, framsal lagasetningarvalds og dómsvalds, sem innganga í Evrópusambandið felur í sér. Ég tel að gera þurfi meiri kröfur í slíkum tilvikum en þegar fram fer þjóðaratkvæðagreiðsla um léttvægari málefni, t.d. þau hvort aka eigi á hægri eða vinstri vegarhelmingi eða hvort heimila eigi hægri beygju á rauðu ljósi. Þetta eru dæmi um atriði sem gætu farið í þjóðaratkvæðagreiðslu og fara í þjóðaratkvæðagreiðslu víða um lönd.

Hefði ekki verið skynsamlegra að fara yfir þessi útfærsluatriði áður en málið var lagt fram hér á þinginu? Ég vænti þess að hæstv. ráðherrar og flutningsmenn frumvarpsins muni (Forseti hringir.) segja skoðun sína á þeim athugasemdum sem ég hef hér fært fram um þessi atriði, herra forseti.