Stefna VG í efnahagsmálum -- orð þingmanns um framlög til stjórnmálaflokka

Miðvikudaginn 15. apríl 2009, kl. 10:50:34 (7496)


136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- orð þingmanns um framlög til stjórnmálaflokka.

[10:50]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta er vissulega nokkuð merkileg umræða en væntanlega eru allir vissir um það í þessum þingsal að kjör þjóðarinnar hafa rýrnað vegna þess sem hér hefur borið að og á þeim tíma sem það gerðist stjórnaði Sjálfstæðisflokkurinn landinu. Varla þarf um það að deila, hæstv. forseti.

Ég vil taka upp ummæli sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson viðhafði fyrir örfáum dögum þegar verið var að ræða fjármuni sem stjórnmálaflokkar hafa fengið frá einstökum aðilum, þá milljónatugastyrki. Hv. þingmaður sagði þá eitthvað á þá leið að allir stjórnmálaflokkar sem störfuðu á Alþingi hefðu tekið þátt í bullinu, eins og hann orðaði það. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessu, hæstv. forseti, og tel að hv. þingmaður eigi að draga þessi ummæli sín til baka. Að því er varðar Frjálslynda flokkinn liggur alveg ljóst fyrir hvaða styrki við höfum fengið á undanförnum árum og frá hverjum þeir hafa komið. Svo að ég upplýsi það hér fengum við 3.652 þús. kr. á árinu 2006, það skal endurtekið: 3.652 þús. kr. Það voru engir milljónatugir, og af því kom ein milljón frá einum aðila. Á árinu 2007 fengum við 4.825 þús. kr. frá mörgum aðilum enda voru þá komin lög um 300 þús. kr. hámark.

Ég mótmæli því þeim orðum sem Kristján Þór Júlíusson hafði um stjórnmálaflokka sem störfuðu á Alþingi, að þeir hefðu allir tekið þátt í þessu bulli og tekið við milljónatugum í gjafir. Það eru ósannindi.