Lífsýnasöfn

Miðvikudaginn 15. apríl 2009, kl. 21:39:49 (7582)


136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

lífsýnasöfn.

123. mál
[21:39]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Dögg Pálsdóttur fyrir hennar orð og yfirferð yfir málið. Það er greinilegt að hún þekkir vel til laganna um lífsýnasöfn og gerir sér fyllilega grein fyrir því hvað það er mikilvægt að greina á milli þjónustusýna og vísindasýna og eins á milli lífsýnasafna sem eru lífsýnasöfn þjónustusýna og lífsýnasöfn vísindasýna. Ég tek hjartanlega undir ábendingar hennar um þá skyldu heilbrigðisyfirvalda, heilbrigðisráðherra, landlæknisembættisins, að fara í kynningu á lífsýnasöfnum og hvað þetta þýðir, hvað það getur þýtt að skila frá sér lífsýni, sama í hvaða formi það er, varðandi vörslu lífsýnanna. Að vísu má segja að 90% af þjónustusýnum er hent en það veit einstaklingurinn ekki. Hann veit ekki hvort sýnin verða geymd eða ekki og það er réttur hvers einasta manns að vita hvað verður svo um sýnið, hvort því verður hent eða hvort það verður geymt og þá hvernig.

Ég tek undir þessa hvatningu enda kemur það fram í nefndaráliti heilbrigðisnefndar að samhliða þessum breytingum hvetjum við til kynningar á málinu og á réttindum sjúklinga.