Barnaverndarlög

Miðvikudaginn 15. apríl 2009, kl. 22:30:45 (7591)


136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

barnaverndarlög og barnalög.

19. mál
[22:30]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Upphaf þess máls sem við ræðum hér, frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum og barnalögum, má rekja til sýknudóma eins og hér hefur verið sagt frá, fyrst í Héraðsdómi Norðurlands og síðan í Hæstarétti, sýknudóma yfir manni sem ákærður var fyrir að hafa rassskellt á beran botninn tvo unga drengi, 4 og 6 ára gamla, og strokið þeim síðan um rassinn og olíuborið á eftir.

Fráskildir foreldrar barnanna voru þeirrar skoðunar að ekki hefði verið rétt að refsa þeim fyrir óþægð með flengingum og kærðu manninn, sem var kærasti móðurinnar en bjó þó ekki með börnunum. Hann var kærður bæði fyrir kynferðisafbrot og fyrir líkamsárás. Það er dapurlegt að réttarfari í þessu landi skuli svo komið að allur vafi hafi verið túlkaður ákærða í hag og sem fyrr segir var hann fundinn sýkn sakar. Í dómnum er m.a.s. bent á að það varði við hegningarlög að slá mann nauðugan á rassinn en dómurinn vísar síðan til þess að það hafi tíðkast eitthvað að flengja börn og ekki sé lagt algjört bann við því í lögunum.

Mig langar til að vitna hér í grein sem birtist í Morgunblaðinu 22. mars sl. í kjölfar hæstaréttardómsins. Höfundur greinarinnar er Guðrún Kristinsdóttir, sem er prófessor í uppeldisgreinum við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Í greininni segir, með leyfi forseta:

„Í dómnum er vísað í barnaverndarlög. Segir að þótt það sé skoðun dómara að það sé óheppilegt og óæskilegt að flengja börn sé varhugavert að slá því föstu að það falli ætíð undir yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi í skilningi 3. mgr. sömu laga, sem varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.“

Síðan segir höfundur greinarinnar:

„Þetta er túlkunaratriði og er mér ekki kunnugt í þaula hvernig ákvæðið hefur verið túlkað hingað til. Í almennum skilningi og með hliðsjón af því sem fram kemur hér að ofan tel ég þó ótvírætt að maðurinn hafi verið með yfirgang á heimili móður og í garð umræddra barna.“

Lokaorðin í grein Guðrúnar Kristinsdóttur eru:

„Dómur af þessu tagi kann að ýta undir það viðhorf að líkamlegar hirtingar foreldra eða staðgengla þeirra, réttmætra eða óréttmætra, séu viðunandi hegðun.“

Við þessum dómi var hart brugðist eins og hér hefur komið fram og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir var 1. flutningsmaður frumvarps til breytinga á lögum sem ætlað var að tryggja að það væri fortakslaust refsivert að beita börn líkamlegu ofbeldi og sérstaklega í refsingarskyni. Þessi dómur sem hér liggur fyrir — ég hlýt að mótmæla því sem fram kom hjá hv. þm. Dögg Pálsdóttur áðan um að um brot á forsjárskyldum hafi verið að ræða hjá viðkomandi móður þar sem forsjáraðilum er skylt að vernda börn sín gegn ofbeldi, andlegu og líkamlegu.

Mig langar að vitna aftur til þess sem Guðrún Kristinsdóttir prófessor segir, en hún hefur mikla þekkingu á ofbeldi og ofbeldissamböndum. Hún er einn af stofnendum Kvennaathvarfsins og hefur fylgt þessum málum eftir, heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum og börnum, um áratugaskeið. Í grein sinni í Morgunblaðinu 22. mars vísar hún til þess sem segir í dómnum og ber vott um að maðurinn, sem eins og ég nefndi áðan var kærasti og ekki sambýlismaður, hafi tekið stjórnina af konunni.

Eins og Guðrún segir hér:

„… en hann tók yfir vald hennar til að siða börnin með rassskellingum. Lýst er hvernig ákærði vildi fylgjast með hegðun barnanna, hann vildi vita um hvert einasta skipti sem þeir gerðu eitthvað af sér.“ — Ég minni á að þeir eru 4 og 6 ára gamlir. — „Hann ræddi við móðurina um að það þyrfti að refsa þeim með flengingum og tók yfir að gera það sjálfur. Þetta allt ber vott um þá stjórnsemi sem er einkennandi fyrir þá sem beita ofbeldi á heimilum.“

Áfram:

„Bent er á að móðirin hafi samþykkt rassskellingarnar. Það segist hún reyndar hafa gert í fyrstu en síðan farið að leyna manninn því ef börnin voru óþekk. Í dómnum virðist mér mikið gert úr umræddu samþykki móður. Mun minna vægi fær það að hún dregur samþykkið til baka, leynir manninn óþægð barnanna og kemst þannig hjá því að hann haldi áfram hirtingum. Athygli vekur að konan sneiðir hjá því að segja manninum að hún vilji vera laus við þessa afskiptasemi hans.“

Af þessu dregur prófessorinn þá ályktun að sambandið sem hér er vitnað til hafi ekki byggst á trausti og öryggi heldur á óöryggi og ótta en slíkt er einmitt algengt og einkennandi þar sem ofbeldi er á ferð.

Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram, herra forseti, vegna þess að eins ótrúlegt og það kann að virðast bera ofbeldissambönd af þessu tagi ákveðin einkenni sem hægt er að lesa í. Dómendum, bæði í Héraðsdómi Norðurlands og í Hæstarétti, virðist því miður hafa verið það fyrirmunað.

Í annarri grein sem birtist í Morgunblaðinu 8. mars eftir Vilhjálm Rafnsson, prófessor í heilbrigðis- og faraldsfræði, er fjallað um þetta mál. Vilhjálmur segir dóminn óhugnanlega lesningu og lærdómsríka. Hann bendir á að strax þegar héraðsdómurinn féll á síðasta ári hafi forstjóri Barnaverndarstofu bent á það opinberlega að vitað væri og viðurkennt af þeim sem best þekkja að líkamlegar aðgerðir sem uppeldisaðferð gætu verið mjög skaðlegar börnum. Þær væru niðurlægjandi fyrir börnin, brytu niður sjálfsvirðingu þeirra og sjálfsmynd.

Síðan segir Vilhjálmur Rafnsson prófessor:

„Ýmislegt í dómnum bendir til þess að hegðun flengjarans hafi ekki haft eingöngu með uppeldi að gera eins og hann heldur fram, heldur geti hafa verið kynferðisleg, en dómarar Hæstaréttar leiða þetta hjá sér og spyrja hann ekki af hverju hann var á ferð með olíu eftir flengingar sem drengirnir kveinkuðu sér ekki undan.“ (Forseti hringir.)

(Forseti (EMS): Forseti vill vekja athygli hv. þingmanns á því að þegar lesinn er upp texti ber að gera það með leyfi forseta.)

Já. Ég skal muna eftir því og hér lýkur tilvitnun, með leyfi forseta.

Það er ekki nema von að mönnum hafi brugðið þegar héraðsdómur birtist og ég tala nú ekki um þegar hæstaréttardómurinn birtist, og virðast dómendur hafa verið algjörlega úr takti við það sem menn almennt töldu að væri fest hér í lög, að það mætti ekki berja börn og það væri refsivert að refsa börnum með líkamlegum flengingum eða barsmíðum. En svo reyndist ekki vera að mati dómendanna. Þeir lokuðu þar að auki augunum fyrir öllu því sem benti til þess að um ofbeldissamband væri að ræða, ofbeldisfullan einstakling, og að þarna gæti hafa verið um kynferðislega athöfn að ræða um leið. Það var þess vegna mjög nauðsynlegt og er mjög mikilvægt að samþykkja frumvarpið sem hér um ræðir en það gerir það fortakslaust refsivert að beita börn andlegum eða líkamlegum refsingum með þessum hætti.

Hér hefur komið fram að um þingmannafrumvarp er að ræða sem hefur tekið gríðarlega miklum breytingum. Eins og hv. framsögumaður nefndarálitsins, Þuríður Backman, sagði áðan, tók frumvarpið bæði til barnalaga og barnaverndarlaga en þessir lagabálkar heyra annars vegar undir dómsmálaráðuneyti og hins vegar undir félags- og tryggingamálaráðuneyti. Málinu var upphaflega vísað í allsherjarnefnd en þaðan fór það yfir ganginn til félags- og tryggingamálanefndar með góðum stuðningi ráðherra barnaverndarlaga, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Þar á bæ höfðu sömu hugsanir leitað á menn og í ráðuneytinu var vilji til þess að breyta sérstaklega þessum ákvæðum á sama hátt og hér er verið að gera. Enda þótt heildarendurskoðun stæði yfir vildu menn taka þetta ákvæði út og það varð niðurstaðan.

Hér hefur einnig komið fram að ekki aðeins er verið að endurskoða barnalögin á vegum dómsmálaráðuneytisins heldur einnig barnaverndarlögin í félags- og tryggingamálaráðuneyti. Er þess vænst að þeirri endurskoðun ljúki næsta haust og það er vel að nefndin sem hér skilar framhaldsnefndaráliti, á þskj. 832, ítrekar hversu mikilvægt það er að fá þessa lagabálka báða inn á sama tíma til þingsins. Ég vil minna á enn eitt atriði í sambandi við það, þ.e. að aðlögun íslenskra laga að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skal einmitt vera lokið fyrir 20. nóvember á þessu ári en þá verða 20 ár liðin frá því að hann var samþykktur.

Herra forseti. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt skref að ræða, mjög mikilvægt lagaákvæði, og ég fagna því sérstaklega, eins og hv. þm. Dögg Pálsdóttir gerði hér áðan, að þingið sjálft skuli grípa til þess að flytja, vinna og samþykkja jafnmikilvægt mál og þetta. Annað mál sem mikið hefur verið rætt um og er þingmannamál er frumvarp um ábyrgðarmenn sem hér var samþykkt fyrir 2–3 vikum, en það hefur ólíkt þessu, eins og bent hefur verið á, verið flutt einum tólf sinnum á undanförnum árum. Hér er verið að flytja þingmannafrumvarp sem mér sýnist að muni verða að lögum með stuðningi allra þingmanna allra flokka strax á morgun og það er vel.