Byggðakvóti

Föstudaginn 17. apríl 2009, kl. 10:51:35 (7745)


136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

byggðakvóti.

[10:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það eru svolítil vonbrigði að þingmenn Frjálslynda flokksins eða a.m.k. þessi hv. þingmaður sem er örugglega í þingflokki Frjálslynda flokksins, skuli ekki taka þeirri tilraun vel sem hér á að gera með að auka (Gripið fram í: ... stjórn LÍÚ.) handfæraveiðar af því að við áttum oft um þetta viðræður á þingi, ég og formaður Frjálslynda flokksins, og höfum verið að mörgu leyti sammála því að æskilegt væri að reyna að fara í einhverja aðgerð af þessu tagi, að byrja allar ferðir á einu skrefi. Hér er verið að fara af stað með þetta fyrirkomulag.

Það er líka nýmæli ef Frjálslyndi flokkurinn er svo ánægður með óbreytt fyrirkomulag byggðakvótaúthlutunar að hann sjái eftir því sérstaklega. Það hefur ekki gengið mjög vel. Þessi útfærsla verður þannig að það verði tryggt eins og kostur er að hver byggð fái a.m.k. ígildi þess afla sem hún hafði í úthlutun byggðakvótans. Í þessum tillögum stendur að höfð verði hliðsjón af honum og reynt verði að tryggja með því að skipta landinu í veiðisvæði og sjá til þess að fjöldi veiðileyfa verði þannig að byggðirnar standi a.m.k. jafnvel og helst betur sem nemur því sem þarna verður aukið í pottinn. Að sjálfsögðu er ekki, nema síður sé, verið að hverfa frá byggðanálguninni í þessari aðgerð. (Gripið fram í: Er það ekki?) Aldeilis ekki. Það er einmitt megintilgangur þessara aðgerða fyrir utan að hleypa lífi í smábátaútgerð, vistvænar veiðar og minni sjávarbyggðirnar, að efla þessar byggðir en með öðrum aðferðum en hinar mislukkuðu aðgerðir byggðakvótaúthlutunarinnar hafa boðið upp á. Þeim kvóta hefur verið úthlutað með miklum harmkvælum eftir á eins og sést best á því að upp undir helmingur af byggðakvóta síðasta fiskveiðiárs er enn ónotaður. Og það er dálítið sérkennilegt að menn komi hér og tali eins og það sé sérstök eftirsjá í því og ekki megi prófa einhverja nýbreytni innan þessa fiskveiðistjórnarkerfis. Ja, öðruvísi mér áður brá (Forseti hringir.) með Frjálslynda flokkinn.