Málefni hælisleitenda

Föstudaginn 17. apríl 2009, kl. 11:04:54 (7753)


136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

málefni hælisleitenda.

[11:04]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegur forseti. Ég er spurð um stöðu kærumála sem til meðferðar eru í dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Ég get ekki tjáð mig um stöðu þeirra að öðru leyti en því að þau eru í vinnslu. Um er að ræða fimm mál. Eitt mál kom til sögunnar í fyrrahaust og hefur farið fram gagnaöflun í ráðuneytinu, bæði af hálfu ráðuneytisins og kæranda. Kærandi hefur sent inn gögn og ráðuneytið sömuleiðis aflað gagna.

Hvað varðar almennt stöðu mála um endursendingu á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar er ekki um að ræða neina stefnubreytingu almennt í þeim málum. Hins vegar hafa málefni hvað varðar Grikkland verið til umræðu og skoðunar í nágrannalöndum okkar og eru hér einnig. Á Norðurlöndum fer fram endursending til Grikklands. Sums staðar eru málefni þeirra einstaklinga sem um ræðir skoðuð sérstaklega og á grundvelli þeirrar skoðunar eru þeir sendir til Grikklands. Síðan benda gögn frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna til þess að slík endursending sé ekki örugg. Undir það hefur Rauði krossinn tekið þannig að á grundvelli allra þessara gagna þarf að taka afstöðu. Það verður að sjálfsögðu gert þannig að rannsóknarskyldu stjórnvalda verði fullnægt.