Frestun á fundum Alþingis

Föstudaginn 17. apríl 2009, kl. 12:18:26 (7784)


136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[12:18]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég sé mig tilknúinn að koma upp við þessa umræðu eins og hún hefur þróast, ég taldi að menn ætluðu að hafa verklagið með öðrum hætti en orðið hefur. Ég vil gera athugasemd við orð formanns Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssonar, sem sagði snemma í umræðunni að fyrrverandi forsætisráðherra hefði boðið fram það verklag, til þess að takast á við mikinn vanda þjóðarinnar, að komið yrði á þjóðstjórn. Ég kannast ekki við að slíkt boð hafi komið fram.

Ég veit að við sem vorum í stjórnarandstöðu á síðastliðnu hausti buðumst til að ganga til liðs við ríkisstjórnarflokkana og mynda þjóðstjórn um vandann sem þjóðin stóð frammi fyrir. Það á við um þann sem hér stendur. Ég minnist þess að Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, bauð það og ég held að ég fari rétt með að Steingrímur J. Sigfússon hafi líka boðið það. Þeirri tillögu var ekki tekið, henni var hafnað. Það þýðir ekkert að koma hér korteri fyrir kosningar og bera það á borð fyrir þjóðina af hálfu Sjálfstæðisflokksins og formanns hans að slík tillaga hafi komið frá fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins. Það eru ósannindi. Hún kom ekki. Það var ekkert hlustað á þetta tilboð á síðastliðnu hausti. Ég vildi aðallega leiðrétta þetta, hæstv. forseti, því það fer betur á að við förum hér með rétt mál. Þjóðin á ekki annað skilið af okkur í því alvarlega ástandi sem er í þjóðfélaginu en að það sé gert.

Auðvitað er það svo að nú þegar stefnir að þinglokum finnst okkur í Frjálslynda flokknum sárt til þess að vita að sumar af þeim tillögum sem við höfum lagt hér inn í þingið fái ekki neina afgreiðslu, m.a. tillaga okkar um hvernig taka eigi á vanda heimilanna, verðtryggingu fjárskuldbindinga, sú aðferð sem við lögðum til í því sambandi fékk því miður ekki afgreiðslu, þ.e. að finna leið til að skipta mjög hækkandi skuldum heimilanna á milli lántakenda og lánveitenda eftir ákveðinni aðferð.

Við söknum þess reyndar sérstaklega að fleiri tillögur hafi ekki fengið afgreiðslu. Ég minni á tillögu okkar um frjálsar handfæraveiðar sem hefur legið fyrir þinginu í fleiri mánuði og hefði verið ástæða til að klára, klára með því að afgreiða það áður en við göngum til kosninga þannig að við vissum að hverju væri stefnt en sætum ekki uppi með þá yfirlýsingu hæstv. sjávarútvegsráðherra að það verði útfært eftir kosningar. Tillaga Frjálslynda flokksins er algerlega ljós í þessu efni. Ég man ekki betur en að nokkrir þingmenn úr hópi núverandi stjórnarflokka hafi beinlínis tekið undir þessa tillögu okkar í málflutningi í vetur. Ég get svo sem nafngreint þá en sé enga ástæðu til þess, það liggur allt fyrir í þingskjölum, hæstv. forseti. Ég sakna þess að tillagan, þó að við höfum flutt hana í Frjálslynda flokknum, hafi ekki fengið brautargengi en menn geti svo komið og lýst því yfir sérstaklega að kosningum loknum að að því gefnu að þeir sitji við völd verði hægt að taka á slíkum málum.

Ég fagna því vissulega ef svo verður, að menn geti tekið á slíkum málum. En ég hefði talið að rétt væri að vinna að málsmeðferðinni eins og upphaflega var boðað hér í hv. Alþingi af okkur í Frjálslynda flokknum með tillöguflutningi okkar þar sem menn höfðu vissulega tekið undir þau áhersluatriði sem við höfum lagt fram.

Þegar þingi lýkur og við göngum til kosninga saknar maður þess að ákveðnar tillögur hafi ekki náð fram að ganga, tillögur sem við teljum að hefðu orðið til mikilla bóta fyrir þjóðina og sem hæstv. sjávarútvegsráðherra virðist nú einnig telja að sjálfsagt sé að taka upp en það verði ekki gert og unnið í því fyrr en eftir kosningar. Þetta er sem sagt kosningaloforð. Þetta er kosningaloforð þó að við höfum setið hér uppi með þingmál til afgreiðslu í þessum farvegi mánuðum saman, hæstv. forseti, og undir þann málflutning hafi verið tekið.

Ég vænti þess, hæstv. forseti, að þó þessi umræða sem hér hófst hafi þróast með þeim hætti sem hún hefur gert verði hægt að fylgja nokkurn veginn því samkomulagi sem menn gerðu um slit þingsins o.s.frv. og þau mál sem verða afgreidd í samkomulagi. Ég geri mér grein fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn er algerlega andvígur því að þjóðin fái til sín vald í sambandi við stjórnarskrárbreytingar. Hann hafnar því að þjóðin fái að greiða atkvæði um einstök mál. Hann hafnar því að auðlindir þjóðarinnar séu í þjóðareign og þær megi ekki selja eða láta varanlega af hendi.

Ég verð að segja að málsmeðferð Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrármálinu í heild sinni hefur valdið mér miklum vonbrigðum. Ég hef stundum haldið að í Sjálfstæðisflokknum væru einstakir menn sem vildu fylgja því fram að lýðræðið yrði aukið meðal þjóðarinnar. Verk þeirra og vinnulag hér í hv. Alþingi benda hins vegar til þess að svo sé ekki. Það er sárgrætilegt að svo skuli vera að menn vilji ekki að þjóðin fái þau réttindi sem verið var að leggja til í því þingmáli sem snýr að stjórnarskránni. Og að menn skuli svo á lokaskrefum þessa máls koma með sérstaka tillögu um að leggjast gegn því að þjóðin eigi auðlindir sínar og að tryggt sé að þær verði ekki seldar eða látnar varanlega af hendi — ég hefði eiginlega ekki trúað því að menn gengju svo langt. Hvað þá heldur hv. þm. Jón Magnússon sem var í Frjálslynda flokknum og flutti með okkur margar tillögur í aðra veru og hefur talað fyrir því árum saman að tryggja annan farveg. Ég harma að svo skuli vera komið fyrir sumum mönnum.