Heimild til samninga um álver í Helguvík

Föstudaginn 17. apríl 2009, kl. 17:31:43 (7885)


136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að stæla hér við hv. þm. Grétar Mar Jónsson. Sami söngurinn, segir hann, og ég segi: Sömuleiðis, takk. (Gripið fram í.) Við vinstri græn höfum, sérstaklega núna á undanförnum dögum, lagt fram tillögur okkar í atvinnumálum og er alveg ljóst að þar tölum við um ódýrari uppbyggingu, meiri möguleika á því að búa til störf með fjölþættari iðnaði en hér er um að ræða. Ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Það er hins vegar alveg ljóst að Frjálslyndi flokkurinn hallar sér í að verða fjórði stóriðjuflokkurinn á Alþingi og mér finnst það miður. Mér finnst það miður því að það samrýmist ekki hans afstöðu í öðrum málum sem hefur verið miklu nær fólkinu í landinu en auðhringjunum. Og við Grétar Mar Jónsson vil ég segja að lokum að djúpborunarverkefni sem á að skila Suðurnesjum 2000 megavöttum er í það minnsta 40 ár inn í tímann.