Áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa

Föstudaginn 31. október 2008, kl. 11:28:06 (649)


136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

101. mál
[11:28]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mig vantar nánari skýringar á því hver sé munurinn á skemmtibátaskírteini, frístundabátaskírteini og pungaprófinu svokallaða sem hefur hingað til verið talin lágmarkskrafa um réttindi sem menn þyrftu til þess að geta siglt skipum. Mér finnst vanta nánari upplýsingar hjá hæstv. samgönguráðherra um muninn á þessum þremur skírteinum sem eiga að vera í framtíðinni því að ég tel mikið öryggismál að skipstjórar á þessum skipum hafi til þess alvöru réttindi.

Ég tók eftir því að í ræðu sinni minntist hæstv. samgönguráðherra ekkert á veiðiheimildir, enda falla þær kannski undir annað ráðuneyti en hans, en þær eru hluti af útgerð á frístundaveiðiskipum. Auðvitað er mjög gott að þarna myndist nýir möguleikar í ferðamannaiðnaðinum og ekkert annað að gera en fagna því og vona að þeim gangi vel í framtíðinni. En ég hefði viljað að hæstv. samgönguráðherra útskýrði fyrir þingmönnum muninn á pungaprófi, skemmtibátaskírteini og frístundabátaréttindum og það sem varðar veiðiheimildirnar.