Aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum

Föstudaginn 31. október 2008, kl. 12:04:15 (656)


136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[12:04]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Sambærileg tillaga hefur áður komið fram og hefur að sumu leyti verið framkvæmd í nefnd sem fékk það hlutverk á sínum tíma að auka hlut kvenna í stjórnmálum, eins og kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Það var alveg ljóst að sú herferð vakti mikla athygli og hafði áhrif á margar konur til aukinnar þátttöku og vitundar um aukna þátttöku kvenna í stjórnmálum eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni.

Það hefur verið mikið rætt af hverju konur og karlar skila sér í mismunandi mæli í stjórnmálin og einnig hvort konur og karlar hafi mismunandi áherslur í stjórnmálum. Flokkarnir hafa lagt mikla áherslu á að virkja konur til þátttöku í stjórnmálum með einum eða öðrum hætti. Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir nefndi að hún væri formaður kvennasamtaka Samfylkingarinnar og ég er fyrrverandi formaður kvennasamtaka sjálfstæðiskvenna og við höfum báðar velt þessum málum mikið fyrir okkur.

Einmitt þessa dagana hef ég verið að safna saman ýmsum tölum varðandi aukinn hlut kvenna á ýmsum vettvangi á sviði stjórnmála og stjórnsýslu og í samfélaginu vegna fyrirlesturs sem ég mun halda í annarri viku hér frá. Ég tók saman tölur frá árinu í ár til samanburðar við það sem var 2004 þegar ég hélt sambærilegan fyrirlestur.

Það kom mér töluvert á óvart hvað mikið hafði áunnist á þessum stutta tíma, m.a. varðandi ráðherraembætti. Það er ekki síst að þakka þátttöku Samfylkingarinnar í núverandi ríkisstjórn að hlutur kvenna í ríkisstjórn hefur aukist úr 25% í 33%. Hins vegar hefur verið töluverð stöðnun í hlut kvenna á þinginu. Af 33% þingmanna voru tæplega 32% þegar þing kom saman eftir kosningarnar í fyrravor. Ég bendi á að hlutfallið var komið í 36,5% fyrir kosningar 2007 og reyndar einnig árið 2003 var það komið í 36,5% þannig að það lækkaði við kosningarnar.

Það sem kom mér líka á óvart var hve hlutur kvenna innan stjórnsýslunnar hefur aukist. Á árinu 2004 voru 15% ráðuneytisstjóra konur en eru núna 33%. Árið 2004 voru konur í nefndum og ráðum á vegum ríkisins 30% en það hlutfall var komið í 36% á síðasta ári. Árið 2004 var hlutfall kvenna í stöðum sendiherra 3% en var komið í 14% í árslok 2007. Einnig kemur í ljós að í stjórnum aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins var hlutfallið árið 2004 2% en fór upp í 9% 2006. Það er reyndar ekki stórt stökk hlutfallslega séð þótt það sé stórt stökk frá 2 upp í 9% og hefur því í rauninni fimmfaldast. Framkvæmdastjórar starfandi fyrirtækja í landinu eru enn þá í kringum 25%. Við höfum því séð ákveðin skref fram á við í þessu á örfáum árum. En betur má ef duga skal.

Mig langar aðeins að fjalla í ræðu minni um rannsókn sem fór fram á vegum IPU, Inter-Parliamentary Union, Alþjóðaþingmannasambandsins en ég er formaður Íslandsdeildar þeirra samtaka. Fyrr á þessu ári kom út skýrsla á vegum samtakanna um jafnrétti í stjórnmálum sem byggð er á viðtölum við konur og karla í þingum. Þar kemur skýrt fram, svart á hvítu, hvað áherslur karla og kvenna í stjórnmálum eru mismunandi og líka hversu þeir þættir sem letja karla og konur til þátttöku í stjórnmálum eru mismunandi. Til dæmis varðandi virkni kvenna í mismunandi málaflokkum, þ.e. hvaða þættir og málaflokkar það eru sem konur beita sér fyrir. Þar kemur í ljós að hjá konum eru í fyrstu fimm sætunum eftirfarandi þættir í þessari röð, þ.e. málefni kvenna í fyrsta sæti, jafnréttismál í öðru sæti, félagsleg málefni í þriðja sæti, fjölskyldutengd málefni í fjórða sæti og menntun í fimmta sæti.

En ef maður horfir á forgangsröðun karla þá eru utanríkismál í fyrsta sæti hjá þeim, í öðru sæti eru efnahags- og viðskiptamál, í þriðja lagi menntun, í fjórða lagi dóms- og stjórnarskrármál og í fimmta lagi félagsleg málefni. Betri rökstuðning fyrir því að konur og karlar eigi að taka jafnan þátt í pólitík hef ég ekki fengið. Áherslurnar eru svo ólíkar að í raun bæta þær hver aðra upp varðandi þau samfélagslegu málefni sem karlar og konur taka til umfjöllunar og gera það að verkum að þörfum allra sviða samfélagsins er betur mætt með því að hafa konur og karla til jafns við þátttöku í stjórnmálum.

Annað sem líka vekur athygli er þegar litið er til bakgrunns þeirra sem taka þátt í þjóðþingum og hvað það var sem leiddi til þátttöku karla og kvenna í stjórnmálum. Þá kemur í ljós að tveir þriðju karla eiga pólitískan bakgrunn eða þeir koma inn á þing eftir þátttöku í pólitísku starfi. En það á einungis við um rúmlega helming kvenna.

Konur eru líklegri til að koma inn í pólitík en karlar vegna fyrri starfa að félagslegum málum, m.a. á vegum frjálsra félagasamtaka og vegna starfa í sveitarstjórnum. Það segir okkur einmitt, af því að í þessari þingsályktunartillögu er lögð áhersla á að hvetja konur til aukinnar þátttöku í sveitarstjórnum, að það er ein leiðin til þess að fá konur inn á þing.

Það er ekki síður athyglisvert að skoða hvaða þættir það eru sem letja konur til þátttöku í stjórnmálum. Þingmenn voru þarna beðnir um að setja á skalann einn til fimm hvaða þættir það eru sem þeir draga fram sem þætti sem letja fólk til þess að taka þátt yfirleitt í stjórnmálum. Þá eru fyrstu þættirnir hjá konum fjölskylduábyrgð, hæst 3,4 af 5, síðan ríkjandi viðhorf gagnvart hlutverki kvenna í samfélaginu, þá skortur á stuðningi í fjölskyldu, í fjórða lagi skortur á sjálfstrausti og í fimmta lagi fjármagnsskortur.

Það má segja að þegar þetta er metið á skalanum einn til fimm þá þurfi maður að komast aftur í ellefta sæti hjá konum til þess að komast í fyrsta sæti hjá körlunum. Þannig að þegar konur eru búnar að meta fyrstu ellefu þættina þá fyrst kemur að körlunum á sama skala að meta hvað það er sem letur þá. Og í fyrsta sæti hjá þeim er stuðningsleysi frá kjósendum. Í öðru lagi fjármagnsskortur. Í þriðja lagi skortur á pólitískum stuðningi frá stjórnmálaflokki. Í fjórða lagi reynsluleysi í að koma fram og í fimmta lagi er skortur á sjálfstrausti. En það vekur líka athygli að fjármagnsskortur vegur hátt hjá körlunum sem og hjá konunum en hann vegur mun hærra hjá konunum varðandi mat á skalanum einn til fimm.

Mér fannst þessar upplýsingar sem ég hef ekki séð áður settar fram með þessum hætti vera mjög áhugaverðar og að þær eigi að geta hjálpað okkur til þess að styðja við bakið á konum til þess að taka þátt í stjórnmálastarfi. Þarna sjáum við bæði rökstuðning fyrir því af hverju konur og karlar eiga að taka til jafns þátt í stjórnmálum og í öðru lagi hvað það er sem veldur því að konur veigra sér við að taka þátt í stjórnmálum. Ég vildi í þessari stuttu ræðu minni koma þessu á framfæri og ljúka með því að vísa í þingmenn sem vísað er í í skýrslunni, um mismunandi áhrif karla og kvenna. Kona sem er þingmaður í Kenía segir hér, með leyfi forseta:

„Konur og karlar eru jöfn en þau eru ólík. Konur líta mun meira á fjölskyldumálefni. Þær horfa á hvort það er rennandi vatn, hvort það er næg fæða og hvort það er öryggi í umhverfinu. En karlar horfa meira á samgöngur, vegi, samskipti, íþróttir og stríð.“

Þetta er dæmi um sjónarmið sem komu þarna fram og þau voru reyndar ekki mjög ólík því sem kom fram í þessari beinu tilvísun. Á svona rannsóknum getum við byggt þegar við erum að taka ákvarðanir og erum að ákvarða hvaða áherslur skulu lagðar varðandi það hvernig við eigum að takast á við þetta málefni.