Mæting á fundi í viðskiptanefnd

Þriðjudaginn 04. nóvember 2008, kl. 13:35:54 (686)


136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

mæting á fundi í viðskiptanefnd.

[13:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Að undanförnu hefur viðskiptanefnd fundað ótt og títt um þann vanda sem blasir við íslensku þjóðinni. Við framsóknarmenn berum vissa ábyrgð á þeim tíðu fundahöldum en við óskuðum ekki bara eftir neyðarfundi út af stöðu sparisjóðanna og annarra minni fjármálafyrirtækja heldur einnig út af málaferlum gamla Kaupþings við breska ríkið og samningunum við Holland og Bretland. Enn liggur fyrir beiðni okkar um að viljayfirlýsing sem íslenska ríkið er búið að gera við Hollendingana verði lögð þar fram.

Í gær fjallaði nefndin um gríðarlega mikilvæg mál, annars vegar um stöðu launþega og hins vegar um stöðuna á peningamarkaðssjóðunum. Fulltrúar Samfylkingarinnar sáu sér ekki fært að mæta við þær umræður og lét stjórnarandstaðan bóka að hún lýsti undrun sinni á því. Svo gerðist það aftur í morgun þegar við vorum að ræða um mjög mikilvæg mál eins og bráðavanda atvinnulífsins og afstöðu um peningamarkaðssjóði að þeir létu sig vanta. Nú er það þannig að ...

(Forseti (StB): Forseti vill aðeins gera athugasemdir hér. Umræður um störf þingsins eru undir öðrum dagskrárlið. Athugasemdir um fundarstjórn forseta eiga að snúast um fundarstjórn forseta.)

Virðulegi forseti. Hæstv. viðskiptaráðherra er ekki hér til að svara spurningum þingmanna og hann verður heldur ekki hér næstkomandi fimmtudag. Ég vil lýsa yfir óánægju minni með þessa fundarstjórn. Það brenna margar spurningar á okkur þingmönnum sem við viljum beina til hæstv. viðskiptaráðherra og mér þótti viðeigandi að kæmi fram hér.