Viðræður forsætisráðherra við Gordon Brown í apríl

Þriðjudaginn 04. nóvember 2008, kl. 13:54:06 (697)


136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

viðræður forsætisráðherra við Gordon Brown í apríl.

[13:54]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Ég bjóst satt að segja ekki við því að sú frétt sem ég vísaði til væri að öllu leyti nákvæm. Samt sem áður liggur fyrir og er hér staðfest af hæstv. forsætisráðherra að strax í apríl var ríkisstjórn Íslands það ljóst að alvarlegar blikur væru á lofti í efnahagsmálum íslensku þjóðarinnar og að dregið gæti til alvarlegra vandamála hvað varðaði starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis. Þess vegna velti ég því fyrir mér af hverju ekki var gripið til aðgerða eða ráðstafana þá þegar.

Hæstv. forsætisráðherra minnist þess ekki að talað hafi verið um aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en spurningin er: Hringdu þá ekki aðvörunarbjöllurnar strax í apríl sem hefði átt að taka tillit til og grípa til aðgerða?